Oddný Harðardóttir, sem senn hverfur úr stóli fjármálaráðherra, hefur lagt fram fjórða fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Sé tekið mið af reynslunni eru hverfandi líkur á að markmið frumvarpsins nái fram að ganga. Fjárlagafrumvarpið ber því miður ýmis merki þess að vera áróðursplagg í aðdraganda kosninga, þar sem rangfærslum og jafnvel blekkingum er beitt með skipulegum hætti.

Forráðamenn ríkisstjórnarinnar eru dugmiklir við yfirlýsingar um gríðarlegan árangur við stjórnun ríkisfjármála. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hélt því fram í stefnuræðu sinni í liðinni viku, að fjárlagafrumvarpið markaði „tímamót vegna þeirra pólitísku velferðaráherslna sem þar munu birtast“. Ráðherrann var ófeiminn við að gefa sér ágætiseinkunn og var með hástemmd hrósyrði:

„Fjárlagafrumvarpið er einnig óræk sönnun þess að ríkisstjórninni hefur á kjörtímabilinu auðnast að koma ríkisrekstrinum á réttan kjöl. Hallinn á fjárlögum 2008 var um 14% af landsframleiðslu en verður á næsta ári vel innan við 1%. Engin ríkisstjórn í hinum vestræna heimi hefur náð slíkum árangri á liðnum árum, engin. Vegna þessa árangurs höfum við í ár loksins náð því marki að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu eru farnar að lækka.“

Hallinn stórlega vanmetinn

Um mitt næsta ár mun liggja fyrir hvernig ríkisstjórninni tókst til við stjórn ríkisfjármála á yfirstandandi ári. Fjárlög gera ráð fyrir að hallinn verði um 20,7 milljarðar króna eða þremur milljörðum meiri en lagt var til í frumvarpi fjármálaráðherrans Steingríms J. Sigfússonar. Náist markmið fjárlaga á þessu ári er ljóst að ríkissjóður heldur áfram að safna skuldum á kostnað komandi kynslóða.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2010, – hinu fyrsta sem norræna velferðarstjórnin lagði fram – reiknaði Steingrímur J. Sigfússon með að hallinn yrði um 87,4 milljarðar króna. Eftir að Alþingi hafði farið höndum um frumvarpið voru fjárlög samþykkt með 98,8 milljarða halla.

Þegar 24 dagar voru eftir af árinu 2010 samþykkti Alþingi fjáraukalög. Samkvæmt þeim var staðan nokkru verri en vonast var eftir og átti hallinn að nema 100,6 milljörðum króna. Niðurstaðan varð hins vegar enn verri. Samkvæmt ríkisreikningi nam tekjuhalli ríkissjóðs 123,3 milljörðum króna. Hallinn var því vanmetinn um 24,4 milljarða í fjárlögum og um 22,7 milljarða í fjáraukalögum, þrátt fyrir að 11 mánuðir væru liðnir af árinu og ætla mætti að þá væru allar helstu upplýsingar um tekjur og gjöld fyrir hendi.

Ekki er reynslan af árinu 2011 betri. Alþingi gerði breytingar á frumvarpi Steingríms J. og var gengið út frá 37,3 milljarða halla. Í fjáraukalögum, sem samþykkt voru um miðjan nóvember, var reiknað með enn meiri halla eða 46,4 milljörðum króna. Niðurstaðan varð allt önnur og verri. Um 89,4 milljarða halli. Með öðrum orðum: Halli ríkissjóðs var 52 milljörðum króna meiri en samþykkt fjárlög og 43 milljörðum meiri en fjáraukalög.

Yfir 100 milljarðar

Á þessum tveimur árum vanmat ríkisstjórnin hallarekstur ríkissjóðs um alls 76,5 milljarða króna miðað við fjárlög og um 65,7 milljarða sé tekið mið af fjáraukalögum. Svo ætlast fjármálaráðherra og forsætisráðherra til þess að einhver treysti því að ríkissjóður verði rekinn með „aðeins“ 2,8 milljarða króna halla á komandi ári.

Vanmatið var enn meira varðandi frumjöfnuð, þ.e. mismun tekna og útgjalda að frádregnum fjármagnskostnaði. Á tveimur árum var frumjöfnuðurinn 101,7 milljörðum króna verri en fjárlög sögðu til um eða nær 11% af rauntekjum ársins. Mismunurinn á fjáraukalögum og ríkisreikningi var um 87,4 milljarðar. Það er rétt hjá forsætisráðherra að engin „ríkisstjórn í hinum vestræna heimi hefur náð slíkum árangri á liðnum árum, engin“.

Alþingi samþykkti fjárlög fyrir árið 2011 þar sem frumjöfnuður átti að verða jákvæður um 15,4 milljarða króna. Jöfnuðurinn varð neikvæður um 42,1 milljarð.

Er nema von að einhverjir efist þegar fjármálaráðherra kemur fram og segir að frumjöfnuður verði jákvæður á komandi ári um hvorki meira né minna en 60,4 milljarða króna?

Vísvitandi blekkingar

Eitt er að vanmeta hallarekstur vegna þess að upplýsingar sem byggt er á reynast ekki réttar og annað að beita vísvitandi blekkingum til að fegra myndina, þó ekki sé nema tímabundið. Ríkisstjórnin beitir blekkingum.

Við afgreiðslu fjáraukalaga 2011, þegar nokkrir dagar lifðu eftir af árinu, var vísvitandi litið framhjá gjöldum sem vitað var að myndu falla á ríkissjóð. Þar munaði mestu um 20 milljarða reikning vegna SpKef. Þá var Steingrímur J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Síðan tók Oddný Harðardóttir við.

Þegar ríkisreikningur sýndi fram á raunveruleikann kom fjármálaráðherrann, sem erfði syndir forvera síns, fram og varði blekkinguna. Í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði ráðherrann:

„Það var samdóma álit manna að setja ekki inn ákveðna upphæð vegna þess að á þeim tíma bar mjög mikið í milli. Auk þess var á þessum sama tíma búið að ákveða að setja málið í gerðardóm. Þannig að niðurstaðan var sú að setja upphæðina ekki inn í fjárlög eða heimildina ekki inn í fjárlög eða fjáraukalög heldur setja þetta saman þegar gerðardómur væri fallinn.“

Grískur feluleikur

Fjármálaráðherra sem telur eðlilegt að afgreiða fjáraukalög með vísvitandi skekkju upp á tugi milljarða, verður aldrei trúverðugur þegar hann leggur fram fjárlög. Óhjákvæmilega er spurt: Er verið að fela eitthvað? Eru gjöld vantalin? Hvaða skekkjur eru í frumvarpinu?

Ekki liðu margir klukkutímar frá því að fjármálaráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp komandi árs þangað til ljóst var að fylgja átti sömu reglu og þegar fjáraukalög 2011 voru afgreidd. Vitað er um tugmilljarða útgjöld á komandi ári en þeirra er í engu getið í frumvarpinu. Einnig eru vísbendingar um að tekjur séu oftaldar, hvort heldur af þreföldun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna eða breytingu á vörugjöldum. Þá er ónefnt að með frumvarpinu ræðst ríkisstjórnin beint á forsendur kjarasamninga og með því er verið að hleypa vinnumarkaðinum í uppnám.

Jóhanna Sigurðardóttir hreykir sér af því að hafa komið „ríkisrekstrinum á réttan kjöl“. Um það skal ekki efast að forsætisráðherra trúi þessu í einlægi í hinum gríska feluleik ríkisstjórnarinnar. Vandi Íbúðalánasjóðs er hins vegar óleystur, lífeyrisskuldbindingar aukast, enn er fjármunum sóað, ekkert er tekið á vanda tuga stofnana, skuldir hækka og skuldbindingar ríkisins eru faldar utan efnahags. Skattgreiðendur hafa ástæðu til að hafa áhyggjur af fjármálastjórn ríkisins, ekki síst þegar forsætisráðherrann stendur í þeirri trú að búið sé að koma öllu í lag.