Jóhanna Sigurðardóttir er á því að óraunhæft sé að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur myndi ríkissjórn að loknum kosningum. Hér skal tekið undir með forsætisráðherra sem gerist ekki oft. Hitt er svo annað að þeir eru til sem láta sig dreyma um slíka ríkisstjórn. Innan Sjálfstæðisflokksins eru áhrifamiklir einstaklingar sem vilja ekkert meira en að ganga að nýju til liðs við Samfylkinguna. Hið sama á við um marga samfylkinga, þá dreymir um ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Í viðtali við DV segist Jóhanna vilja samstarf núverandi stjórnarflokka og þá með fleiri flokkum:

„Það getur verið að fleiri aðilar þurfi að koma að slíkri stjórn. Það eru ýmsir flokkar sem eru að bjóða fram núna. Við verðum að sjá til hvernig það fer. Ég vil sjá stjórn jafnaðarmanna og félagshyggjufólks.“

Þetta er sama stefið og Steingrímur J. Sigfússon fylgdi í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra:

„Að loknum þessum kosningum væri svo auðvitað óskapleg gæfa ef við sameinuðumst um að umhverfsiverndarsinnuð og félagslega þenkjandi umbótaöfl leiddu landið áfram. Ég tel að aðrir stjórnmálaflokkar og framboð í landinu eigi að sameinast um að bjóða Sjálfstæðisflokknum upp á að minnsta kosti fjögur ár í viðbót til endurhæfingar og sjálfskoðunar sem enn virðist, vel að merkja, ekki hafa farið fram.“

Umdeild ríkisstjón

Þegar forysta Sjálfstæðisflokksins ákvað að ganga til samninga við Samfylkinguna um myndun ríkisstjórnar eftir kosningar 2007, voru ýmsir sjálfstæðismenn sem höfðu miklar efasemdir, svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Með tímanum jukust þessar efasemdir.

Sá er þetta ritar var alla tíð mótfallinn samstarfi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Í ágúst 2008 skrifaði ég grein í tímaritið Þjóðmál þar sem sett var fram hörð gagnrýni á ríkisstjórnina en einnig bent á þann vanda sem Sjálfstæðisflokkurinn glímdi við. Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins brugðust illa við gagnrýninni þegar þeir voru spurður álits í fjölmiðlum.

Í ágúst 2008 grunaði mig ekki að innan fárra mánaða myndi fjármálakerfið hrynja slíkt og spilaborg, ríkisstjórnin hrökklast frá völdum innan hálfs árs og Sjálfstæðisflokkurinn bíða sinn mesta kosningaósigur í apríl 2009.

Greinin í Þjóðmálum hófst á þeim orðum að Sjálfstæðisflokkurinn eigi „við innri og ytri vanda að glíma“:

„Takist flokknum ekki að leysa vandann er líklegt að hann verði ekki lengur stærsta og áhrifamesta stjórnmálaafl landsins. Staða flokksins hefur aldrei, á síðari tímum, verið viðkvæmari og erfiðari.

Flokksmenn eru ekki samstiga í afstöðunni til aðildar að Evrópusambandinu, erfiðleikar í efnahagsmálum hafa dregið úr vinsældum Geirs H. Haarde og sú mynd að ríkisstjórn hans standi ráðalaus og aðgerðalítil gagnvart efnahagslegum þrengingum hefur með réttu eða röngu náð að festa sig í hugum landsmanna. Pólitískur sirkus í Reykjavík hefur dregið úr trúverðugleika forystumanna flokksins sem virtust lengi vel aðeins berja höfðinu við steininn.“

Því var haldið fram að á sama tíma hefði Sjálfstæðisflokkurinn „opnað helsta pólitíska andstæðingi sínum leiðir til að láta sverfa til stáls og særa flokkinn djúpu sári sem mun seint gróa“.

Bent var á að Sjálfstæðisflokkurinn væri klofinn í utanríkismálum í fyrsta skipti í sögu flokksins. Evrópusambandið væri fleygur milli flokksmanna. En fleira sundraði. Margir væru óánægðir með hvernig staðið hefði verið að ríkisfjármálum og hvernig ríkisbáknið hefði þanist út:

„Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hafa eftirlitsstofnanir sprottið upp eins og gorkúlur og eru orðnar að sérstökum iðnaði. Þrátt fyrir umfangsmikla einkavæðingu er stór hluti efnahagslífsins í raun án samkeppni og ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins virðist ekki vilja ganga rösklega til verks í þeim efnum. Úrelt kerfi í landbúnaði er enn við lýði undir sérstökum verndarvæng Sjálfstæðisflokksins. Aðgreining á því hver greiðir og hver veitir þjónustu í heilbrigðiskerfinu hefur ekki náð fram að ganga og afleiðingin er sú að þjónustan er verri og dýrari með tilheyrandi biðlistum. Í hugum margra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hefur virðing fyrir opinberu fé farið þverrandi hjá kjörnum fulltrúum flokksins, jafnt í ríki og borg.“

En gagnrýnin snéri ekki síst að samstarfinu við Samfylkinguna en því var haldið fram að með því hefði Samfylkingunni verið færður bjarghringur. Kosningarnar 2007 voru áfall fyrir Samfylkinguna og þá sérstaklega fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem þá sat í formannsstóli. Flokkurinn tapaði liðlega 4% atkvæða. Fylgið minnkaði í öllum kjördæmum en mest í Reykjavík norður þar sem fallið var hvorki meira né minna en 7,1 prósentustig.

Það var því pólitískt lífsspursmál fyrir Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu að tryggja sér sæti við ríkisstjórnarborðið. Það sæti tryggði Sjálfstæðisflokkurinn:

„Pólitísk áhrif Ingibjargar Sólrúnar og Samfylkingarinnar voru því endurnýjuð og flokknum gefið nýtt líf í samkeppni við Sjálfstæðisflokkinn, eins og skoðanakannanir hafa leitt í ljós. Sjálfstæðisflokkurinn minnkar samkvæmt könnunum og stendur höllum fæti en samfylkingarfólk hefur fyllst þeirri von á ný, að flokkur þeirra geti orðið stærsta stjórnmálaafl á landinu. Kjósendur höfnuðu því að veita Samfylkingunni „hið sögulega tækifæri“ sem Ingibjörg Sólrún talaði um eftir að hafa tekið við völdum í flokknum. Sjálfstæðisflokkurinn ákvað hins vegar að rétta henni það á silfurfati, þrátt fyrir neikvæðan dóm kjósenda yfir henni.“

Endurtekning frá 2007?

Það þykir ekki skynsamlegt að útiloka samstarf í stjórnmálum. En því verður vart trúað að sjálfstæðismenn séu tilbúnir til að endurtaka leikinn frá 2007 og kasta enn á nú bjarghring til Samfylkingarinnar. Að óbreyttu mun samfylkingar bíða afhroð í komandi kosningum.

Eftir ömurlega reynsu af samstarfinu 2007 til 2009, eftir framkomu þingmanna Samfylkingarinnar á yfirstandandi þingi og þá ekki síst í landsdómsmálinu, verður erfitt að sannfæra kjósendur Sjálfstæðisflokksins um réttmæti þess að mynda að nýju ríkisstjórn með Samfylkingunni. Þá er líklega betra heimasetið en af stað farið.

Samfylkingin er í grunninn sami tækifærissinnaði flokkurinn og hann hefur alla tíð verið. Nú hentar flokknum að úthúða íhaldinu og sveigja stefnuna til vinstri. En það ristir ekki djúpt. Ég sé ekki betur en að lýsingin á Samfylkingunni í Þjóðmálum frá 2008 standi óhögguð”

„Í hugum margra sjálfstæðismanna svipar Samfylkingunni, sem stjórnmálaflokki, um of til stjórnmálamannsins Ólafs Ragnars Grímssonar. Hvorugt hefur pólitíska sannfæringu, stundar hentistefnu, leggjast flöt að fótum auðmanna í þeirri von að fá sess við borð hinna efnameiri, kynnast hóglífi auðmanna og fá nasasjón af lífsstíl í krafti auðlegðar, þau líta bæði á sig sem menntamenn og leggja auð, völd og menntahroka að jöfnu.”

Hér er hægt að lesa greinina í Þjóðmálum frá 2008: Flokkur í ólgusjó