Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir gera sér fyllilega grein fyrir því að ríkisstjórn þeirra mun ekki halda meirihluta eftir komandi kosningar. Miðað við skoðanakannanir geta þau gert sér vonir um að fá í besta falli 26 þingmenn. Hugmyndin um að Björt framtíð Guðmundar Steingrímssonar, gæti orðið þriðja hjólið undir ríkisstjórnarvagninum virðist andvana fædd. Björt framtíð mun ekki fá mann kjörinn á þing fremur en aðrir nýir flokkar sem hafa stefna að framboði. En jafnvel þó Guðmundi Steingrímssyni takist ætlunarverkið dugar það ekki enda líklegt að þeir þingmenn verði á kostnað stjórnarflokkanna a.m.k. að hluta til.

Andspænis þessum pólitíska veruleika er aðeins eitt í stöðunni fyrir Samfylkinguna og Vinstri græna, ætli flokkarnir sér að sitja í ríkisstjórn að loknum kosningum: Samstarf við Framsóknarflokkinn.

Steingrímur beið ekki boðanna og bar fram bónorðið til Framsóknarflokksins í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. En líkt og feiminn sveitadrengur biðlaði hann til Framsóknarmaddömunnar með óbeinum hætti:

„Að loknum þessum kosningum væri svo auðvitað óskapleg gæfa ef við sameinuðumst um að umhverfsiverndarsinnuð og félagslega þenkjandi umbótaöfl leiddu landið áfram. Ég tel að aðrir stjórnmálaflokkar og framboð í landinu eigi að sameinast um að bjóða Sjálfstæðisflokknum upp á að minnsta kosti fjögur ár í viðbót til endurhæfingar og sjálfskoðunar sem enn virðist, vel að merkja, ekki hafa farið fram. Á þeim tíma mæli ég með því að við verðum góð við Sjálfstæðisflokkinn, við verðum umburðarlynd og skilningsrík og við veitum Sjálfstæðisflokknum skjól til að reyna að finna fjölina sína. Kannski verður hann þá aftur einhvern tíma stjórntækur, sæmilega víðsýnn flokkur með svolitlu félagslegu eða húmanísku ívafi, eins og hann var stundum, og hugsanlega verður hann einhvern tíma aftur fær um að bera ábyrgð á efnahagsmálum án þess að stofna okkur í stórhættu.“

Við eigum eftir að heyra bónorðið borið upp aftur og ítrekað í aðdraganda kosninga. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar munu verða blíðlyndir í garð Maddömunnar. Spjótunum verður beint að Sjálfstæðisflokknum og stjórnarliðar munu ganga hart fram. Fyrir nokkra þingmenn Framsóknarflokkinn verður freistingin til að taka þátt í atlögunni að íhaldinu of mikil til að þeir geti staðist hana.

A.m.k. 26 þingmenn

Þessi taktík ríkisstjórnarinnar er skynsamleg. Ýmislegt bendir til þess að Framsóknarmaddaman sé til í tuskið. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur á síðustu vikum reynt að fjarlægjast Sjálfstæðisflokkinn meðal annars með harðri gagnrýni á frjálshyggju. Vinstri öflin í Framsóknarflokknum eru vöknuð til lífsins og munu vinna að því að flokkurinn taki höndum saman við Samfylkinguna og Vinstri græna.

Líkurnar á að Sjálfstæðisflokknum takist það ætlunarverk sitt að koma vinstri stjórninni frá og mynda ríkisstjórn, verða hverfandi ef flokkurinn fær ekki nema 22-23 þingmenn. Framsóknarflokkurinn mun ekki hafa pólitískt þrek að ganga til samstarfs við sjálfstæðismenn.

Til að koma í veg fyrir að vinstri stjórn eftir kosningum með þátttöku Framsóknarflokksins, verður Sjálfstæðisflokkurinn að fá a.m.k. 26 þingmenn kjörna á þing. Og það er langt í frá útilokað ef flokknum tekst vel upp í starfi sínum á næstu mánuðum. Verkefnið er vissulega erfitt en það er mikið í húfi.

Hvernig getur Sjálfstæðisflokkurinn tryggt sér 26 þingmenn? Svarið er nokkuð augljóst. Sjálfstæðisflokkurinn verður að bæta við sig verulega fylgi í öllum kjördæmum en lykillinn liggur í helmingsfjölgun þingmanna í Reykjavík og sterkri stöðu í Suðurkjördæmi og Kraganum.

Hvaðan koma 26 þingmenn?

  • Reykjavíkurkjördæmin 10
  • Suðvesturkjördæmi       6
  • Suðurkjördæmi               4 (5)
  • Norðvesturkjördæmi    3 (2)
  • Norðausturkjördæmi    3 (2)

Nái Sjálfstæðisflokkurinn ekki þremur þingmönnum í báðum Norðurkjördæmunum verður flokkurinn að treysta á að fá fimm þingmenn í Suðurkjördæmi.

Af þessu er ljóst að sjálfstæðismenn þurfa að bretta upp ermarnar.