Íslendingur og Dani sitja hlið við hlið á tónleikum í Hörpu. Þeir njóta tónlistarinnar í glæsilegum sal og í þægilegum sætum. Íslendingurinn greiddi tíu þúsund krónur fyrir miðann en sessunautur hans þurfi aðeins að borga átta þúsund krónur.

Á sama tíma sitja íslensk hjón á góðum veitingastað og gera vel við sig. Á næsta borði eru þýsk hjón. Á matseðli dagsins er þriggja rétta fiskmáltíð og innifalið er flaska af ljúfu Chablis-hvítvíni. Íslensku hjónin ganga frá sínum reikningi og kippa sér ekki upp við 20 þúsund krónur. Þau þýsku eru einnig ánægð enda maturinn einstakur. Þau ganga sátt út af veitingastaðnum eftir að hafa greitt 16 þúsund krónur – fjögur þúsund krónum minna en íslensku hjónin þurftu að greiða.

Daginn eftir tekur Akureyringur upp kreditkortið sitt til að greiða fyrir gistingu á ágætu hóteli í borginni. Hann hafði verið í viðskiptaerindum í Reykjavík. Við hlið hans er þekktur Íslendingur sem nú er búsettur í Bretlandi. Báðir höfðu þeir verið í þrjá daga á hótelinu. Norðanmaðurinn kvittar fyrir 45 þúsund króna reikning. Hinn „breski“ Íslendingur þarf að standa skil á 36 þúsund krónum – enda undanþeginn „Íslandsskatti“ sem Akureyringurinn þarf að greiða.

Sanngjarnt? Nei. Fáránlegt? Já.

Uppreisn

Það yrði uppreisn ef tekið yrði upp kerfi þar sem erlendir ríkisborgarar (og Íslendingar búsettir í öðrum löndum) fá 20% afslátt af öllu því sem þeir kaupa hér á landi. Við Íslendingar erum sannfærðir um að allir eigi að vera jafnir fyrir lögum og reglum. Við vitum að þegar gengið er gegn þessari grunnreglu réttarríkisins, byrjar frjálst samfélag að mola að innan, hægt og bítandi.

Engu að síður er þetta staðan á Íslandi í dag. Stjórnvöld hafa gengið gegn grunnreglu réttarríkisins. Og fáir mótmæla. Fjölmiðlar eru sinnulausir. Þingmenn virðast ekki hafa áhuga. Alþýðusamband Íslands þegir. Samtök atvinnulífsins segja ekkert.

Með stuðningi ríkisstjórnar norrænnar velferðar og jafnréttis, hefur Seðlabankinn undir forystu Más Guðmundssonar, tekið upp reglu sem brýtur allar hugmyndir um jafnræði og sanngirni. Í skjóli óréttlætis er erlendum aðilum boðið að kaupa íslensk fyrirtæki og fasteignir með 20% afslætti. Íslendingar sem hafa tekið þá „skynsamlegu“ ákvörðun að setjast að í öðrum löndum, njóta einnig forréttinda.

Íslendingar sem hafa staðið í atvinnurekstri af skynsemi í samkeppni við ofurskuldsettar viðskiptasamsteypur, hafa þurft að sætta sig við milljarða afskriftir keppinautanna. Til að gera samkeppnina enn ójafnari verða íslenskir athafnamenn að horfa upp á að erlendir aðilar kaupi samkeppnisaðila, sem þegar hefur fengið skuldir afskrifaðar, með 20% afslætti. Allt í nafni gjaldeyrisútboða Seðlabankans.

Flestir þegja

Það er rangt gefið á Íslandi. Það er eitthvað rotið. En flestir þegja þunnu hljóði.

Þegar danskt stórfyrirtæki keypti íslenskt fyrirtæki, sem var fyrir löngu gjaldþrota, fagna stjórnvöld, enda um erlenda fjárfestingu að ræða. Þegar var búið að tryggja „rekstrargrunninn“ með milljarða afskriftum og til að auðvelda hinum erlenda aðila var honum veittur hundruð milljóna afsláttur af kaupverðinu. Íslendingar sem höfðu áhuga á að kaupa, gátu ekki keppt við slík afsláttarkjör. Sérstakur „Íslandsskattur“ kom í veg fyrir að þeir stæðu jafnfætis dönsku risafyrirtæki.  Litlu fyrirtækin sem hafa staðið af sér ójafna samkeppni á undanförnum árum, verða enn á ný að glíma við keppinaut sem hefur fengið í hendur fyrirtæki með forgjöf.

Það er óskiljanlegt að forystumenn samtaka atvinnurekenda skuli taka þessu öllu án þess að standa upp og segja: Hingað og ekki lengra.

Allir skulu jafnir

Það er sameiginlegt verkefni Íslendinga að byggja upp heilbrigt samfélag með öflugu viðskiptalífi.  Til þess þarf að laða að erlenda fjárfesta ekki síður en innlenda. Sú uppbygging getur aldrei orðið þegar ósanngirni og óréttlæti eru með í för. Þá er betur heimasetið en af stað farið.

Erlendir fjárfestar eiga að vera velkomnir til landsins. En það er fráleitt að bjóða þeim sérstök vildarkjör – 20% afslátt – af fjárfestingu sem er jafnvel gerð í samkeppni við innlenda aðila. Það er jafnfráleitt og opinberir aðilar leiðbeini og beiti sér fyrir því að farið á svig við lög, svo erlendur fjárfestir geti komist yfir íslenska jörð.

Eitt af verkefnum nýrrar ríkisstjórnar á komandi ári er að tryggja að farið sé að einfaldri reglu réttarríkisins: Allir skulu vera jafnir fyrir lögum. Fátt tryggir betur velmegun frjálsrar þjóðar.