Viðbrögð ráðherra norrænu velferðarstjórnarinnar við niðurstöðum dómstóla og kærunefnda eru athyglisverð. Forsætisráðherra gagnrýnir einstakling fyrir að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Umhverfisráðherra telur rétt að breyta lögum fyrst dómstólar komast að niðurstöðu sem er honum ekki þóknanleg. Ríkisstjórnin fer í kringum ógildingu Hæstaréttar á kosningu til stjórnlagaþings með því að skipa stjórnlagaráð á grunni ólöglegra kosninga. Og þegar forsætisráðherrann sem jafnframt er ráðherra jafnréttismála, er talin hafa brotið lög um jafnan rétt kynjanna, er slíkt hundsað og sagt að „faglega” sé að verki staðið.

Ögmundi Jónassyni er því nokkur vorkunn. Ólíkt forsætisráðherra og ólíkt Svandísi Svavarsdóttur sætir hann gagnrýni eigin flokksmanna og sótt er að honum af fylgismönnum Steingríms J. Sigfússonar. Bjarni Harðarson, telur að með því að hrekja Ögmund úr ríkisstjórn sé verið að treysta völd formannsins.

Jóhanna árið 2004

„Það er áfall fyrir réttarkerfið og stjórnsýslureglur að réttarvitund og viðhorf sjálfs dómsmálaráðherra og forsætisráðherra sé jafnhraksmánarlegt gagnvart jafnréttislögum og raun ber vitni,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir 16. apríl 2004 í umræðum utan dagskrár um skipan hæstaréttardómara. Kærunefnd jafnréttismála hafði þá komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði brotið jafnréttislög. Björn Bjarnason var dómsmálaráðherra.

Í mars 2011 komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að Jóhanna Sigurðardóttir hefði sem forsætisráðherra brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga þegar hún skipaði í embætti skrifstofustjóra hjá forsætisráðuneytinu. Úrskurðarorð nefndarinnar voru skýr:

„Forsætisráðherra braut gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu.“

Í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu vegna þessa sagði:

„Forsætisráðuneytið telur að faglega hafi verið staðið að undirbúningi og skipun skrifstofustjóra á nýrri skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu.“

Í umræðum á Alþingi hélt Jóhanna því fram að málið hefði verið unnið af „bestu samvisku og af heilindum“. Við ráðningu á skrifstofustjóranum hafi verið byggt á á „faglegu verklagi sem er alþjóðlega viðurkennt og því fylgt frá upphafi til enda“. Hún hafnaði því að hægt væri að líkja málinu við gagnrýni sína á Björn Bjarnason vegna ráðningar á hæstaréttardómara.

Árið 2004 var Jóhanna Sigurðardóttir ekki að skafa utan af því og hélt því fram að viðhorf ráðamanna þjóðarinnar væri „mikið áfall fyrir jafnréttisbaráttuna og raunar lítilsvirðing við þjóð sem kennir sig við jafnrétti og mannréttindi“:

„Hroki og vankunnátta hæstvirts forsætisráðherra og dómsmálaráðherra á jafnréttislögum er hrópandi.“

Þannig var það hroki og vankunnátta þegar Björn Bjarnason var talin hafa farið gegn jafnréttislögum en „faglega“ að verki staðið þegar forsætisráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir gekk gegn sömu lögum samkvæmt niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Árið 2004 var Jóhanna klár á því hvað myndi gerast í öðrum löndum:

„Hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem brýtur svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka. En hér á landi er allt leyfilegt hjá ráðherrum og þeir komast upp með allt. Ef ráðherrar eru ósáttir við lög eiga lögin bara að víkja en ekki þeir að þeirra mati.“

Össur Skarphéðinsson orðaði sömu hugsun 11. maí 2004 þegar enn var rætt um skipan hæstaréttardómara utan dagskrár:

„Í flestum löndum hefði ráðherra sem orðið hefði svo alvarlega á í messunni fyrir löngu sagt af sér. Ég spyr því að lokum: Hvernig ætlar hæstvirtur ráðherra að axla ábyrgð sína? Ætlar hann að sitja eins og ekkert hafi í skorist?“

Össur spurði ekki þessara spurninga þegar komist var að því að Jóhanna Sigurðardóttir hafi brotið jafnréttislög.

„Óeðlilegt“ að einstaklingur leiti réttar síns

Fimm árum eftir að Jóhanna og Össur gengu hart fram í gagnrýni sinni komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að Jóhanna Sigurðardóttir hefði sem félagsmálaráðherra gerst brotleg við 21. grein stjórnsýslulaga þegar hún vék einstaklingi úr stjórnarnefnd fatlaðra og skipaði annan. Í viðtali í Kastljósi 16. febrúar 2009 (en þá var Jóhanna orðin forsætisráðherra) sagðist hún ekkert þurfa að læra af dómi héraðsdóms. Ekki hafi „óeðlilega“ verið staðið að því að víkja viðkomandi úr stjórnarnefndinni en sér þætti „fullkomlega óeðlilega hafa verið staðið” að málsókninni. Með öðrum orðum: Jóhanna taldi óeðlilegt að einstaklingur leitaði réttar síns ef hún sem ráðherra brýtur stjórnsýslulög.

Í febrúar 2011 staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands um að ógilda ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra sem hafði neitað að staðfesta hluta aðalskipulags Flóahrepps varðandi Urriðafossvirkjun. Svandís baðst ekki afsökunar á stjórnsýslu sinni. Hún lýsti því yfir að endurskoða yrði lagaumhverfi við gerð skipulags. Í frétt Morgunblaðsins sagði:

“Svandís sagði að ráðuneytið þyrfti að fara yfir dóminn og skoða hvort lagaumhverfi væri nægilega skýrt fyrir sveitarfélögin sem bera ábyrgð á skipulagsvinnunni. Eitt af því sem þyrfti að skoða væri hvort framkvæmdaaðilar gætu tekið þátt í hverju sem er.”

Nú er komið að Ögmundi

Forvitnilegt er að fylgjast með hvernig sótt er að Ögmundi Jónassyni eftir að kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði sem innanríkisráðherra brotið jafnréttislög þegar hann skipaði í embætti sýslumanns á Húsavík.

„Það er auðvitað ekki gott og ekki til eftirbreytni“, sagði Jóhanna um embættisfærslu Ögmundar. Steingrímur J. sagðist ekki ætla að blanda sér í málið en aldrei sé hægt að útiloka að menn misstígi sig þó reynt sé að vanda sig við ráðningar á opinberum starfsmönnum. Steingrími dettur ekki í hug að koma samflokksmanni sínum til varnar en þess í stað eru samþykktar ályktanir í félögum Vinstri grænna og gefnar út yfirlýsingar. Ögmundur skal segja af sér eða a.m.k. biðjast afsökunar. Á sama tíma ákvað Steingrímur að ráða ráðuneytisstjóra í sameinað atvinnuvegaráðuneyti án auglýsingar. Með því fækkaði konum sem gegna stöðu ráðuneytisstjóra um eina.