Allt logar stafna á milli í illdeilum í húsi Vinstri grænna. Fyrrverandi ráðherra mætir ekki á flokksráðfund og sitjandi þingmaður telur slíkt tímaeyðslu. Hnútukast og brigslyrði ganga manna á milli.

Samfylkingin ráfar um stefnulaus, enda ljóst að ESB-draumurinn er orðinn að engu þó að enn séu þeir til sem berja höfðinu við steininn. Fyrrverandi og verðandi ráðherrar flokksins biðla til annarra flokka um að þeir leggi fram stefnu til framtíðar fyrst Plan A var byggt á sandi. Til að gera angist samfylkinga enn meiri heldur Jóhanna Sigurðardóttir flokknum í spennitreyju og neitar að upplýsa hvort hún ætlar að fara eða vera. Á meðan sitja þau sem láta sig dreyma um formennsku þæg – ýmist mæra foringjann, hóta samstarfsflokknum stjórnarslitum eða þegja þunnu hljóði.

Þeir fjölmörgu og þá ekki síst kjósendur Vinstri grænna, sem vonuðust eftir því að forysta flokksins tæki af skarið og endurnýjaði heit sín við kjósendur urðu fyrir vonbrigðum með flokksráðsfund á Hólum í Hjaltadal. Varaformaður flokksins hafði vakið vonir í aðdraganda fundarins en ákvað síðan að hella olíu á eldinn með því að ráðast að þeim flokksmönnum sem krafist hafa þess að staðið væri við gefin fyrirheit.

„Moggahvolparnir“ Ragnar og Hjörleifur

Aðstoðarmaður formannsins lét síðan kné fylgja kviði og skrifaði niðrandi um þá sem fremstir hafa farið innan Vinstri grænna í kröfunni um að staðið verði í lappirnar í andstöðunni við aðild að Evrópusambandinu. „Moggahvolpar“ og „nátttröll“ skulu þeir kallaðir sem gagnrýna forystuna fyrir undanlátssemi við Samfylkinguna og fylgisspekt við aðildarviðræður.

Einhvern tíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson væru kallaðir hvolpar, hvað þá „Moggahvolpar“ af samflokksmönnum. Ekki eru mörg ár síðan öllum helstu fréttastofum – ríkisreknum sem einkareknum – hefði þótt það fréttnæmt ef aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins hefði kallað gamla forystumenn flokksins „Þjóðviljarakka“. En nú eru aðrir tímar og sjálfsagt talið að aðstoðarmenn sæki í smiðju forsætisráðherra sem lítur á þingmenn Vinstri grænna sem „villiketti“.

Þegar andrúmsloftið í herbúðum Vinstri grænna er með þessum hætti er ekki að undra að fáir hafi séð ástæðu til að koma heima að Hólum, sem er gamalt vígi Jóns Bjarnasonar, til að afgreiða ályktun um að fagna „þeirri umræðu sem nú fer fram um samskipti Íslands og ESB“ og um leið hvetja „til að henni verði haldið áfram“. Á flokksráðsfundinum var því endanlegan látið undan hótunum Samfylkingarinnar um stjórnarslit.

Í stað andstöðu við aðild að Evrópusambandinu var framganga rússneskra stjórnvalda „gagnvart aðgerðasinnunum Pussy Riot sem hlotið hafa tveggja ára dóm fyrir friðsamleg mótmæli“ fordæmd. Þá var talið nauðsynlegt að lýsa yfir andstöðu við hugmyndir „um lagningu rafmagnssæstrengs milli Íslands og Skotlands“. Í stað þess að berjast gegn ESB-aðild var talið rétt að Vinstri grænir beiti sér fyrir því að hafin verði endurskoðun hegningarlaga og þá sérstaklega á grein „sem bannar svokallaða smánun á erlendu ríki“ sem og grein er bannar guðlast.

Til að sýna þann alvöruþunga sem einkennir allt starf og stefnu Vinstri grænna var samþykkt ályktun þar sem áréttað er „að jafnan skuli auglýsa stöður hjá hinu opinbera, í samræmi við opna stjórnsýsluhætti og lög“.

Með þessu var ekki verið að gera kaldhæðnislegt grín að formanni flokksins eða forsætisráðherra. Aðeins var verið að gefa þeim kjósendum langt nef, sem trúðu loforðum um opna og gegnsæja stjórnsýslu.

Tækifæri á kosningavetri

Brátt gengur kosningavetur í garð og sundurtætt ríkisstjórn gefur stjórnarandstöðunni mikil tækifæri. Jafnt til að koma sínum málum fram en einnig til standa í vegi fyrir að gæluverkefni ríkisstjórnar í aðdraganda kosninga, nái fram að ganga.

Sjálfstæðismenn geta hrundið atlögu ríkisstjórnarinnar að ferðaþjónustunni. Þeir geta komið í veg fyrir að rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda verði afgreidd með pólitísku hrossakaupum stjórnarflokkanna, þar sem vinnu sérfræðinga í meira en áratug, er kastað fyrir borð. Margir þingmenn Samfylkingarinnar eru með óbragð í munni vegna þessara hrossakaupa sem koma í veg fyrir skynsamlega nýtingu orkuauðlinda og uppbyggingu atvinnulífsins. Þeir vita sem er að það verður erfitt og jafnvel útilokað að koma heim í hérað og sannfæra kjósendur um veita þeim brautargengi í kosningum. Pólitískt líf margra er í húfi. Með samvinnu við þessa þingmenn geta Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur komið í veg fyrir frekari skemmdarverk ríkisstjórnarinnar.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eiga að leggja línurnar í þeim uppskurði sem gera verður á rekstri ríkisins á komandi misserum og árum. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir komandi ár verða þeir að leggja fram hugmyndir og tillögur um hvernig fitan verður skorin af stjórnkerfinu. Sumt verður umdeilt og annað jafnvel ekki til vinsælda fallið. En skilaboðin sem sjálfstæðismenn senda fyrir komandi kosningar verða að vera skýr: Við ætlum að verja velferðarkerfið með því að endurskipuleggja ríkisreksturinn. Við ætlum að minnka stjórnkerfið og innleiða samkeppni í opinberri þjónustu, (líkt og undirritaður hefur skrifað um). Við ætlum að hleypa súrefni inn í atvinnulífð en ekki halda því í súrefnisvél opinberra afskipta, ofsköttunar og sífellt flóknari regluverks og eftirlits.

Skýrt val

Með róttækum tillögum og harðri stjórnarandstöðu getur Sjálfstæðisflokkurinn gengið til kosninga og gert að engu þá „hótun“ sem samþykkt var á flokksráðsfundi Vinstri grænna um að nauðsynlegt sé að fylgja eftir þeim „árangri“ sem nást hefur „með áframhaldandi samstarfi vinstrimanna í íslenskum stjórnmálum á næsta kjörtímabili“.

Fyrst og síðast á Sjálfstæðisflokkurinn að vera óhræddur við að stilla upp einföldum kostum í aðdraganda kosninga. Fyrir kjósendur stendur valið á milli þess að núverandi ríkisstjórn haldi völdum með eitthvert „þriðja hjólið“ undir vagninum eða að við taki ný ríkisstjórn með skýra stefnu í atvinnu-, skatta-, velferðar-, og utanríkismálum. Hægt er að orða þetta með öðrum hætti: Valið stendur um stöðnun og afturhald eða sókn og uppbyggingu.

Frammi fyrir slíku vali er varla erfitt að standa.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur átta mánuði til tryggja að kjósendur telji sig eiga þessa tvo skýru kosti. Þar ræður framganga þingmanna flokksins á komandi kosningavetri miklu en einnig með hvaða hætti flokksmenn velja sér frambjóðendur og hverjir þeir verða.

Tækifærin eru til staðar. Sjálfstæðisflokkurinn getur annað hvort nýtt sér þau eða kastað þeim á glæ.