Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra, hefur haldið því fram að þeir sem hafni því að Evrópusambandið sé lausn flestra vandamála á Íslandi, þurfi að koma með plan B. Með því viðurkennir Árni Páll að Samfylkingin hefur lítið annað fram að færa í íslenskum stjórnmálum eða efnahagsmálum en aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru. Sú spurning er því áleitin fyrir hvað Samfylkingin ætlar að standa og berjast fyrir þegar landsmenn hafa formlega gert Brussel-drauminn að engu.

Í viðtali við Morgunblaðið 14. ágúst síðastliðinn lýsti Árni Páll því yfir að ekki væri hyggilegt að hverfa frá umsókn um aðild að ESB þó að „það séu vandamál í Evrópu“. Hann telur að „stundarhagsmunir“ eigi ekki að breyta afstöðu manna til „aðildarferilsins“. Enginn hafi komið með trúverðuga lausn sem þjóni íslenskum hagsmunum betur en aðild að Evrópusambandinu. Í huga Árna Páls þurfa Íslendingar hins vegar að „hugsa ferlið öðruvísi en hingað til“. Síðan sagði ráðherrann fyrrverandi:

„Við þurfum ekkert á því að halda að loka neinum dyrum strax. Það er svolítið skrítið að þeir sem ekki hafa plan B keppist við að skemma plan A.“

Dramb og yfirlæti

Aðeins einn flokkur hefur samþykkt að aðild að Evrópusambandinu skuli vera plan A. Ekki hefur meirihluti landsmanna samþykkt slíkt plan enda hafa kjósendur aldrei verið spurðir. Samfylkingin og meirihluti þingmanna Vinstri grænna hafa komið í veg fyrir það. Hér skal drambsemi og yfirlæti Samfylkingarinnar, sem felst í því að tala um ESB-aðild sem plan A, látið liggja á milli hluta.

Ef plan A felst í aðild að ESB þá hlýtur plan B að felast í því að ganga ekki inn í brennandi hús evrunnar og Evrópusambandsins. Þá er hægt að hrinda plani C í framkvæmd. Gera róttæka uppstokkun í ríkisrekstri og ná jafnvægi í fjármálum, tryggja jafnræði í lífeyrisréttindum, hefja litla atvinnurekandann aftur til vegs og virðingar, sækja fram með nýtingu orkuauðlinda og afnema gjaldeyrishöft í áföngum þar sem fyrsti áfangi er sá að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta í öðrum löndum. Samhliða verður að hlúa að vaxtarbroddum s.s. ferðaþjónustu og tæknifyrirtækjum ekki síst með því að tryggja þeim stöðugleika í skattareglum en hræra ekki stöðugt í lögum og reglum í þeim tilgangi að herða skatta- og eftirlitskrumlu ríkisins. Síðast en ekki síst verður að hrinda atlögunni sem gerð hefur verið að millistéttinni frá 2009. Ekkert þjóðfélag þrífst án öflugrar millistéttar. Hin „norræna velferðarstjórn“ hefur engan skilning á því að millistéttin er burðarás velferðarkerfisins.

Endurskoðun EES og fríverslun

Um leið og unnið er samkvæmt plani C á að hefja undirbúning að plani D. Endurreisn og framsókn íslensks efnahagslífs byggist ekki síst á samstarfi við aðrar þjóðir og frjálsum viðskiptum með vöru og þjónustu. Frjáls aðgangur að erlendum mörkuðum er undirstaða hagsældar.

Árni Páll Árnason og aðrir samfylkingar hafa með framgöngu sinni og stuðningi Vinstri grænna reynt að koma málum þannig fyrir að Íslendingar telji sig ekki eiga aðra kosti í samfélagi þjóðanna en að ganga til liðs við Evrópusambandið. Meirihluti landsmanna er fyrir löngu búinn að átta sig á að ekkert er fjær sanni. Íslendingar eiga marga góða kosti og Evrópusambandið er ekki þeirra hagstæðastur.

Í október 2010 lagði undirritaður til í grein hér í Morgunblaðinu að taka upp viðræður við stjórnvöld í Noregi, Kanada, Bandaríkjunum, Færeyjum og Grænlandi um viðskipta- og öryggishagsmuni landanna vegna Norður-Íshafsins og gerð fríverslunarsamnings landanna. Samhliða því að koma á fót fríverslunarsvæði er nauðsynlegt að kanna hvort og með hvaða hætti löndin geri með sér samning um frjálst flæði fjármagns og vinnuafls. Þá verði einnig samið um öfluga samvinnu á sviði vísinda, mennta, lista og menningar.

Með fríverslunarbandalagi í norðurhöfum getur orðið til eitt mesta hagvaxtar- og framfarasvæði heims. Aukin samþætting ríkja Evrópusambandsins með yfirstjórn ríkisfjármála landanna, gerir sambandið ekki aðeins minna eftirsóknarvert fyrir Ísland heldur einnig önnur ríki og þá ekki síst Svíþjóð, Finnland, Danmörku og Bretland. Norðurhafabandalagið verður því hugsanlega fýsilegur kostur fyrir þessi ríki.

Vera kann að stofnun Norðurhafabandalagsins verði til þess að skynsamlegt sé fyrir Ísland og Noreg að segja skilið við Evrópska efnahagsvæðið. Í öllu falli er nauðsynlegt að endurskoða EES-samninginn. Það eru sameiginlegir hagsmunir Evrópusambandsins og annarra EES-ríkja að sú endurskoðun fari fram, ekki síst með aukinni samþættingu ríkisfjármála evruríkjanna. Íslendingar hafa í mörgu notið góðs af EES en einnig þurft að gjalda fyrir ókostina. Endurskoðun samningsins felst ekki aðeins í því að sníða af galla regluverks um fjármálamarkaði heldur ekki síður að tryggja sjálfstæði löggjafans hér á landi.

Gæluverkefni

Þegar menn telja sig hafa fundið stórasannleika – lausnina á öllum vanda – verða þeir blindir á allt umhverfi sitt. Plan A – aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru – er stórisannleikur Samfylkingarinnar sem hefur blindað forystu flokksins á þá ótrúlegu möguleika sem Íslendingar eiga. Verst er þó að í blindni sinni hafa samfylkingar ekki sinnt mörgu öðru en sérstöku gæluverkefni forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá. Af hverju ættu þeir að ómaka sig þegar lausnin er fundin?

Í sjálfu sér er ekkert við því að segja að stjórnmálaflokkur leggi allt sitt traust á aðild að ESB. Vandinn er hins vegar sá að kostnaðinn greiða allir landsmenn í formi verri lífskjara. Allt er látið sitja á hakanum og reka á reiðanum. Plan A hefur reynst Íslendingum dýrkeypt.

Á traustum grunni

Þrátt fyrir allt hefur ýmislegt gengið vel á þeim tæpu fjórum árum sem Samfylkingin og Vinstri grænir hafa setið í ríkisstjórn. Sjávarútvegur gengur vel þrátt fyrir óvild stjórnvalda, stóriðja skilar verulegum tekjum, ferðaþjónusta er í sókn og mörg hátæknifyrirtæki hafa staðið af sér erfiðleika og gott betur. Fullhugar með nýjar og ferskar hugmyndir hafa komið fram og gefa góð fyrirheit um framtíðina.

Allt þetta hefur gerst vegna þess að undirstöðurnar voru traustar. Ríkissjóður var nær skuldlaus þegar fjármálakerfið hrundi og innviðir samfélagsins sterkir. Neyðarlögin, sem Geir H. Haarde beitti sér fyrir, komu í veg fyrir gjaldþrot landsins og voru forsenda þess að Íslendingar gætu unnið sig út úr áföllum. (Jafnvel Steingrímur J. Sigfússon hefur áttað sig á þessari staðreynd. Hann launaði Geir með því að draga hann fyrir Landsdóm). Samvinnan við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn kom nokkrum böndum á ríkisstjórnina. Síðast en ekki síst gerði íslenska krónan landsmönnum þrátt fyrir allt kleift að ná andanum og tryggði fyrirtækjum samkeppnishæfni. Krónan skilaði nauðsynlegu súrefni.

Þegar búið er að taka til í rekstri ríkisins og endurskipuleggja rekstur þess, hrinda í framkvæmd öflugri sókn í atvinnumálum, m.a. með nýtingu orkuauðlinda, styrkja millistéttina, byggja undir framtaksmanninn, er fyrst hægt að huga að framtíðarskipulagi í gjaldmiðlamálum. Ákvarðanir í þeim efnum kunna að mótast af því hvort unnið verður að því að koma fríverslun í norðurhöfum á fót. Við getum kallað það plan E.