Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra heldur því fram að ferðaþjónustan sé á ríkisstyrk, þar sem lagður er 7% virðisaukaskattur á gistingu en ekki 25,5% ofurskattur líkt og á flest, en ekki allt annað. Samkvæmt þessari röksemdafærslu ráðherrans eru fleiri sem njóta aðstoðar ríkisins. Fjölmiðlar, bókaútgefendur, hitaveitur og matvælaframleiðendur, eru samkvæmt fjármálaráðherra ríkisstyrktir. Ætli ráðherrann að vera sjálfum sér samkvæmur hlýtur hann að vinna að því að afnema ríkisstyrkina líkt og hann ætlar að gera þegar kemur að ferðaþjónustunni.

Eins og komið hefur fram í fréttum ætlar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar að nær þrefalda virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna. Það kemur í hlut Oddnýjar Harðardóttur að hrinda skattahækkuninni í framkvæmd. Réttlætingin er einföld: Ferðaþjónustan, sem er vaxtarbroddur, skal skattlögð meira, því annað sé ríkisstyrkur.

Í samtali við fréttastofu ríkisins sagði fjármálaráðherra:

„En núna er mikill vöxtur í greininni og það er auðvitað mjög jákvætt. En það er mikilvægt að greinin vaxi á raunverulegum forsendum en ekki á grundvelli umbunar umfram aðrar greinar.“

Að þessu sinni er ferðaþjónustan fórnarlamb ríkisstjórnar hinnar norrænu velferðar og ofurskattheimtu, en í siktinu eru fleiri atvinnugreinar:

„Já ég lít þannig á að allt sem ekki er í almenna þrepinu sé á ríkisstyrk.“

Samkvæmt yfirliti á vefsíðu Ríkisskattstjóra er 7% virðisaukaskattur á eftirfarandi:

  • Útleigu hótel- og gistiherbergja og annarri gistiþjónustu.
  • Afnotagjöldum hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva.
  • Sölu tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða.
  • Sölu bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, sem og hljóðupptökur af lestri slíkra bóka.
  • Sölu á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugarvatns.
  • Sölu á matvælum og öðrum vörum til manneldis sem skilgreindar eru í viðauka við lög um virðis auka skatt.
  • Aðgangi að vegamannvirkjum, s.s. gjaldtöku vegna aðgangs að Hvalfjarðargöngum.
  • Sölu á geisladiskum, hljómplötum, segulböndum og öðrum sambærilegum miðlum með tónlist en ekki mynd.

Orð Oddnýjar Harðardóttur benda til þess að fjölmiðlar, listamenn, hita-, vatns- og rafveitur, sem og matvælaframleiðendur eigi von á því að þeir verði næstu fórnarlömb ríkisstjórnarinnar. Enda í fullu samræmi við röksemdir fjármálaráðherra. Landsmenn greiða reikninginn í formi hærri matarkostnaðar. Þeir greiða meira fyrir húshitun og rafmagn og lánin hækka vergna verðtryggingar. Síðan verða þeir að segja upp áskriftum að fjölmiðlum og hætta að kaupa bækur og tónlist, enda hafa þeir ekki efni á slíkum munaði. En á móti kemur að Ríkisútvarpið stendur eftir enda skulu allir greiða sinn skatt til að reka það. Þá er tilganginum náð fyrir vinstri flokkana. Fréttastofa ríkisins stendur vörð um málstaðinn.