Stjórnendur íslenskra lífeyrissjóða eru í klemmu sem stjórnvöld hafa búið til og vilja ekki sleppa þeim úr. Þeim er gert að ávaxta fjármuni sjóðsfélaga sinna með sem bestum hætti um leið og þeir verða að leitast við að lágmarka áhættu. Krafan um góða ávöxtun hefur aukist eftir hrun fjármálakerfisins. En möguleikar lífeyrissjóðanna til ávöxtunar eru takmarkaðir. Lífeyrissjóðirnir hafa þurft að sætta sig við að ávaxta sitt pund fyrst og fremst með tvennum hætti. Annars vegar með því að fjármagna skuldsetningu hins opinbera og hins vegar með því að taka þátt í áhættufjármögnun með kaupum á skuldsettum íslenskum fyrirtækjum.

Gjaldeyrishöftin gera lífeyrissjóðunum ókleift að dreifa áhættunni með skynsamlegum hætti og fjárfesta í erlendum verðbréfum – skuldabréfum og hlutabréfum. Þannig hafa gjaldeyrishöftin aukið áhættu íslensks launafólks og að óbreyttu gert lífeyrisréttindi þeirra lakari en ella. Gjaldeyrishöftin vinna þannig beint gegn almenningi. Afleiðingar haftanna hafa einnig aðrar og ekki síður alvarlegar afleiðingar.

Endurnýjuð völd

Lífeyrissjóðirnir eru farnir að taka afgerandi þátt í fyrirtækjarekstri í meira mæli en áður hefur þekkst. Hrun fjármálakerfisins hefur þannig endurnýjað og aukið völd gamallar valdastéttar í íslensku viðskiptalífi. Valdastéttar sem sýslar ekki með eigin fjármuni heldur með sparifé (ævisparnað) almennra launamanna. Nú er svo komið að lífeyrissjóðir eru með beinum eða óbeinum hætti orðnir helstu hluthafar í mörgum af stærstu fyrirtækjum og fyrirtækjasamsteypum á Íslandi.

Lífeyrissjóðir eru með ráðandi stöðu í Icelandair Group – stærsta og öflugasta flugfélagi og ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Framtakssjóður Íslands, sem er í eigu 16 lífeyrissjóðs, Landsbankans (ríkisbankans) og VÍS, er stærsti hluthafinn. Af 20 stærstu hluthöfum í Icelandair, sem eiga nær 83% hlutafjár, er ekki einn einasti einstaklingur eða hlutafélag í eigu einstaklinga. Lífeyrissjóðir, bankar og verðbréfasjóðir eru eigendur fyrirtækisins.

Framtakssjóður er umsvifamikill á fyrirtækjamarkaði. Sjóðurinn er með ráðandi hlut í N1 og Promens, og mikinn meirihluta í Vodafone og Advania og á Icelandic Group að fullu. Lífeyrissjóðir eiga ráðandi hlut í Högum, sem er stærsta verslanakeðja landsins. Eitt stærsta tryggingafélag landsins er komið undir yfirráð lífeyrissjóðanna en fyrir skömmu var tilkynnt að Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Stafir lífeyrissjóður, Festa lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga og Lífeyrissjóður Vestfirðinga, hefðu keypt 60% hlutafjár í Tryggingamiðstöðinni. Sjóður 10 á vegum Íslandssjóða, auk fjárfesta á vegum VÍB – Eignastýringar Íslandsbanka, Virðingar og Auðar Capital, tóku þátt í kaupunum með lífeyrissjóðunum.

… síðan kemur ofkælingin

Eignarhald íslenskra fyrirtækja er því að fjarlægjast raunverulega eigendur – eigendur lífeyrissjóðanna, sem hafa lítil sem engin áhrif á fjárfestingarstefnuna og sparifjáreigendur sem hafa ávaxtað fé sitt í verðbréfasjóðum. Valdakerfi í íslensku viðskiptalífi er að breytast. Völdin eru tryggð í krafti annarra manna peninga. Saga kennir að reynslan af slíku er vond og leiðir til ófarnaðar.

Sá er þetta skrifar hefur ítrekað varað við því að lífeyrissjóðir yfirtaki eða eignist ráðandi hlut í fyrirtækjum og þá ekki síst fyrirtækjum í samkeppnisrekstri. Slíkt eignarhald skekkir samkeppnisstöðu fyrirtækja og leiðir atvinnulífið inn á svipaðar brautir og fyrir hrun fjármálakerfisins, þegar til urðu öflugar fyrirtækjasamsteypur í skjóli óeðlilegs aðgangs að lánsfé. Síðar kom í ljós að mörg þessara fyrirtækja höfðu byggt á sandi.

Stjórnendum lífeyrissjóðanna er hins vegar vorkunn. Sjóðirnir hafa þurft að skerða lífeyrisréttindi sjóðsfélaga verulega á undanförnum árum vegna gríðarlegs taps sjóðanna, ekki síst vegna áhættufjárfestinga. Í viðleitni sinni til að vinna upp tap síðustu ára vilja stjórnendur lífeyrissjóðanna ávaxta fé í áhættusömum samkeppnisrekstri, enda eiga þeir fáa kosti til ávöxtunar, eins og áður segir. Hætta er sú að ávöxtunin verði lakari í framtíðinni og komi niður á lífeyrisréttindum. Þetta er líkt og að pissa í skóinn, manni hitnar í smástund en síðan kemur ofkælingin.

Með fyrirhyggju og skýrri framtíðarsýn hefði verið hægt að búa til frjóan jarðveg fyrir íslenska athafnamenn. Í hruni fjármálakerfisins fólst stórkostlegt tækifæri til að stokka upp spilin, brjóta upp viðskiptasamsteypur sem fengið höfðu að vaxta og dafna í skjóli óeðlilegs aðgangs að láns- og áhættufé (m.a. frá lífeyrissjóðunum) og reyna að tryggja sanngjarna og eðlilega samkeppni. Stjórnvöld höfðu hvorki kjark né sýn til framtíðar. Vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur engan skilning á þeim einföldu sannindum að þjóðfélag sem vill sækja fram og bæta lífskjörin, þarf á sjálfstæða atvinnurekandanum að halda. Í forherðingu sinni og/eða vegna sljóleika komu forystumenn ríkisstjórnarinnar í veg fyrir að framtaksmaðurinn – drifkraftur framfara – fengi að njóta sín.

Þess í stað voru samsteypurnar endurreistar, komið var í veg fyrir að fyrirtæki „fengju“ að fara á hausinn og þar með var mikilvægu stjórntæki frjálsra viðskipta og samkeppni kippt úr sambandi. Í þessu óheilbrigða umhverfi hófu lífeyrissjóðirnir að fjárfesta að nýju og leggja stórfyrirtækjum til áhættufé.

Forystumenn lífeyrissjóðanna munu því ekki stuðla að uppstokkun íslensks viðskiptalífsins heldur fremur standa gegn slíkum tilraunum, jafnvel þó að langtíma hagsmunir skjólstæðinga þeirra liggi í því að tryggja fjölbreytni atvinnulífsins og uppgang sjálfstæða atvinnurekendans. Þessi þversögn verður ekki leyst fyrr en sjóðsfélagar fá völdin yfir eigin fjármunum.

Breytum leikreglunum

Til framtíðar verður að breyta leikreglum sem lífeyrissjóðirnir starfa eftir. Í fyrsta lagi verður að lýðræðisvæða sjóðina þannig að sjóðsfélagar kjósi stjórnir með beinum hætti og taki ákvörðun um fjárfestingarstefnu þeirra. Þá verður að setja ákvæði í lög um hámarkshlut hvers og eins lífeyrissjóðs í hlutafélögum (5-6%) samhliða því að tryggt verði að í heild geti lífeyrissjóðir ekki átt meira en fjórðung hlutafjár.

Það er verðugt verkefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn að beita sér fyrir þessum breytingum enda í samræmi við grunnstef í stefnu flokksins.

Þegar þing kemur saman að nýju eftir gott sumarfrí, eiga þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að leggja fram frumvarp til laga um þessar breytingar, samhliða því sem þeir eiga að leggja fram ítarlega tillögu um að afnema gjaldeyrishöftin í áföngum. Fyrsti áfanginn á að vera sá að heimila lífeyrissjóðunum að ávaxta fé sitt með erlendum fjárfestingum og dreifa þannig áhættunni og um leið draga úr ásælni þeirra í innlendan áhætturekstur. Fyrsta skrefið í afnámi hafta er það mikilvægasta og það er hægt að stíga áður en septembermánuður er allur.