Vinstri ríkisstjórn norrænnar velferðar heldur sínu striki. Allt sem hreyfist skal skattlagt er meginstef í stjórnarstefnu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. Þess vegna telja þau rétt að leggja þyngri skatta á ferðaþjónustuna sem hefur náð umtalsverðum árangri á síðustu árum. Slíkt er talið ólíðandi án þess að skattleggja.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins greinir frá því að ríkisstjórnin ætli að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna þannig að skattur á selja gistinótt verði 25,5% en ekki 7% eins og nú er. Síðan er því haldið fram að vonir ríkisstjórnarinnar standi “til þess að skatturinn hafi ekki áhrif út í verðlagið”. Það þarf mikla hugmyndaauðgi til að komast að þeirri niðurstöðu að þegar skattur á þjónustu er 3,6-faldaður muni það ekki hafa áhrif á verðlag.

Samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins hefur sérstakur gistináttaskattur sem lagður var á fyrir ári ekki skilað þeim tekjum sem reiknað var með og því skal margfalda skattheimtuna með hækkun virðisaukaskattsins:

“Stjórnvöld telja að þessi skattur lendi fyrst og fremst á erlendum ferðamönnum sem sækja landið heim, enda séu það aðallega þeir sem nýti sér hótelgistingu. Skatturinn ætti því ekki að hafa mikil áhrif út í verðlagið.”

Sé þessi frétt rétt er ljóst að annað hvort standa Jóhanna og Steingrímur J. í þeirri trú að Íslendingar ferðist ekki um eigið land eða þá að þau telja það sérstaklega eftirsóknarvert að koma í veg fyrir slíkt ferðalög. (Enda gæti hækkun virðisskattsins runnið út í verðlagið!!)

Nú er svo komið að það er beinlínis orðið hættulegt fyrir atvinnugreinar að ná árangri og jafnvel þokkalegri afkomu. Með því verða þær skotskífa skattmanns sem fylgist með öllu sem hreyfist.