Gömul kona, sem hafði alla tíð unnið hörðum höndum og komið fjórum börnum til manns, sagði að ekki væri tímabært að gefa upp öndina og var hún þó ánægð en södd lífdaga. Hún þyrfti nokkra mánuði til að leggja örlítið meira fyrir til að eiga fyrir útförinni. Fyrr ætlaði hún ekki að kveðja. Í huga þessarar gömlu heiðurskonu kom ekki til greina að skilja við þennan heim og láta börnin greiða reikninginn.

Við sem höfum fengið að njóta verka hinna eldri verðum að tileinka okkur hugsun gömlu konunnar. Við getum ekki slegið víxla til að reka hið opinbera kerfi og látið börnunum okkar og barnabörnum eftir það erfða verkefni að greiða. Með því rýrum við lífskjör og velferð þeirra sem á eftir koma. Engin kynslóð hefur siðferðilegan rétt á því að velta vanda samtímans yfir á afkomendur. Þess vegna verður að fara í róttæka uppstokkun á rekstri og skipulagi hins opinbera.

Metnaður hverrar kynslóðar hefur staðið til þess að byggja upp samfélagið og búa þannig í haginn fyrir þá sem á eftir koma. Kapp hefur verið lagt á að tryggja afkomendum betra líf og fjölbreyttari tækifæri.

Tækifæri úr greipum

Í kjölfar falls íslenska fjármálakerfisins fékk ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna einstakt tækifæri til þess að beita sér fyrir umfangsmikilli endurskoðun og -skipulagningu hins opinbera. Engin ríkisstjórn í sögu lýðveldisins hefur fengið annað eins ráðrúm til að skera upp ríkiskerfið með það að markmiði að styrkja velferðarkerfið en um leið tryggja að reikningur samtímans verði ekki sendur til barna og barnabarna. Í stað þess að nýta tækifærið ákvað ríkisstjórnin að halda áfram á sömu braut en var neydd til niðurskurðar vegna samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Kannski var ekki við öðru að búast. Það er einfaldara og pólitískt auðveldara að beita hníf niðurskurðar en beita sér fyrir róttækri endurskipulagningu á öllum rekstri hins opinbera. Um leið og hnífnum er brugðið á loft eru gefin loforð um betri tíma – aukin ríkisútgjöld þegar betur árar.

Vandinn í búskap hins opinbera (ríki og sveitarfélaga) er miklu víðtækari en svo að hægt sé að beita niðurskurðarhnífnum og vona síðan það besta í framtíðinni.

Frá árinu 1980 hafa útgjöld hins opinbera nær þrefaldast að raunvirði (mælt á verðvísitölu landsframleiðslu samkvæmt útreikningi Hagstofunnar). Fyrir 32 árum námu útgjöld ríkis og sveitarfélaga um 258 milljörðum króna á verðlagi ársins 2011. Á síðasta ári voru útgjöldin um 751 milljarður króna, þrátt fyrir nokkurn niðurskurð. Árið 1981 var meðalfjöldi Íslendinga rétt liðlega 228 þúsund en á síðasta ári 319 þúsund. Útgjöld á hvern Íslending voru því 1,1 milljón árið 1980 en tæpar 2,4 milljónir króna 2011. Þannig tvöfölduðust útgjöldin að raungildi á hvert einasta mannsbarn.

Ef stjórnmálamenn á Alþingi og í sveitarstjórnum hefðu staðið á bremsunni frá árinu 1980 og haldið raungildi útgjalda á mann óbreyttu hefðu gjöldin verið 390 milljörðum króna lægri á síðasta ári en raun varð á. Þetta jafngildir 4,9 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu eða liðlega 400 þúsund krónum á mánuði.

Hægt er að færa rök fyrir því að ekki sé óeðlilegt að útgjöld hins opinbera aukist ár frá ári umfram vísitölu landsframleiðslu. En jafnvel með slíkum rökum er með engum hætti hægt að réttlæta þá gríðarlegu hækkun útgjalda sem orðið hefur á síðustu þremur áratugum. Draga verður í efa að margar fjölskyldur telji að þær fái aukna þjónustu og betri frá ríki og sveitarfélögum sem er rúmlega 400 þúsund króna virði á mánuði.

Meginreglan hefur verið sú að útgjöld hins opinbera hafi verið hærri en tekjur eða í 22 ár af 32 frá árinu 1980. Samtals nemur hallinn rúmlega 525 milljörðum króna. Þennan halla verða skattgreiðendur framtíðarinnar að greiða með einum eða öðrum hætti. Í raun er hallinn enn meiri því með skipulegum hætti hafa ýmsar skuldbindingar verið faldar og það sem er verra; skatttekjur framtíðarinnar verið færðar til að standa undir rekstri samtímans líkt og gert var þegar samið var við álfyrirtækin um fyrirframgreiðslu skatta. Þannig er verið að svindla á komandi kynslóðum.

Innleiðum samkeppni

Sú stund er fyrir löngu runnin upp að almenningur átti sig á því að Íslendingar hafa ekki efni á að reka það umfangsmikla kerfi sem byggt hefur verið upp á umliðnum áratugum. Liðlega 300 þúsund manna þjóð hefur ekki efni á því að halda úti 15 sendiráðum eða halda úti fjölmörgum eftirlitsstofnunum, sem eru sumar hverjar a.m.k. í besta falli óþarfar. Íslendingar hafa ekki efni á því að halda úti flókinni og fjölmennri stjórnsýslu en reyna á sama tíma að tryggja gott heilbrigðiskerfi.

Þjóð sem telur sig neydda til að skera niður í löggæslu hefur ekki efni á því að reka forsætisráðuneyti sem kostar 1,2 milljarða króna á ári. Draga verður í efa að réttlætanlegt sé að greiða liðlega 400 milljónir í laun til listamanna, sem flestir eru fullfrískir, á sama tíma og menntastofnanir líða skort og nemendur þurfa að taka afleiðingunum. Sú spurning vaknar hvort ekki sé hægt að reka velferðarráðuneytið fyrir lægri fjárhæð en 920 milljónir á sama tíma og heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þurfa að sæta stórkostlegum niðurskurði. Varla munu himinn og jörð farast þótt tekið sé til hendinni í umhverfisráðuneytinu sem kostar í heild 8,5 milljarða og þar af 327 milljónir vegna rekstrar aðalskrifstofu. Getur verið að eitthvað sé að í forgangsröðun þegar ekki er hægt að endurnýja lífsnauðsynleg tæki á sjúkrahúsum en talið er rétt að reka Umhverfisstofnun fyrir 922 milljónir króna?

Þannig verður að fara í gegnum hvern einasta útgjaldalið, hverja einustu stofnun og hvert ráðuneyti. Spyrja verður gagnrýnna spurninga. Ekki aðeins hvort landsmenn hafi efni á standa undir kostnaði heldur ekki síður hvort hægt sé að réttlæta útgjöldin. Hið sama á við um sveitarfélögin.

En það þarf fleira að koma til. Með skipulegum hætti á að innleiða samkeppni innan hins opinbera, þar sem því verður komið við. Gera verður greinarmun á því hver veitir þjónustuna og hver greiðir fyrir hana. Það er skynsamlegt fyrir þann sem greiðir að efna til samkeppni milli þeirra sem hafa áhuga á að veita þjónustuna, hvort heldur um er að ræða heilbrigðisþjónustu eða rekstur menntastofnana. Slík samkeppni tryggir að öðru jöfnu lægra verð. Fátt er betra fyrir þann sem nýtir sér þjónustuna en að keppt sé um viðskiptin – að fleiri en einn og fleiri en tveir berjist um að fá viðkomandi í viðskipti. Þjónustan verður betri og nær því að uppfylla þær þarfir sem fyrir hendi eru með ódýrari hætti en áður. Við höfum reynsluna úr heilsugæslunni sem rennir stoðum undir þessa fullyrðingu.

Þeir sem veljast til setu í sveitarstjórnum eða á Alþingi eru trúnaðarmenn almennings – gæslumenn sameiginlegra fjármuna landsmanna. Þeim ber því að gæta aðhalds og verja fjármunum af skynsemi. Þeir eiga að gera allt til að koma í veg fyrir að eyðsla samtímans kalli á aukna skattheimtu og lakari lífskjör í framtíðinni. Metnaðurinn á að vera sá að byggja upp og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir en skilja ekki eftir reikninginn. Þess vegna eiga stjórnmálamenn samtímans að strengja sameiginlegt eitt heit: Okkar arfleifð verður aldrei sú að hafa veðsett framtíð afkomenda okkar.