Frétt DV.is frá 17. janúar 2011 þegar Björk gekk á fund Steingríms og Jóhönnu.

Grímsstaðir á Fjöllum eru að verða að nýju Magma fyrir Steingrím J. Sigfússon og forystu Vinstri grænna. Vandræðamál sem virðist vera ofviða fyrir formanninn. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að skipa samráðshóp ráðherra og ráðuneyta. Skipan samráðshóps er talin góð leið meðal vinstri manna til að koma sér hjá því að taka ákvörðun eða í það minnsta að fresta ákvörðun í þeirri veiku von að vandinn leysist með einhverjum hætti.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lýst andstöðu sinni við að gefið verið út heimild til að leigja Huang Nubo Grímsstaði. Jón Bjarnason fyrrverandi ráðherra stendur með Ögmundi og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir einnig. Þau eru öll félagar Steingríms J. í VG.

Innan Samfylkingarinnar virðist almennur stuðningur við að leigja kínverska auðmanninum Grímsstaði og Steingrímur J. má ekki til þess hugsa að styggja samstarfsflokkinn í ríkisstjórn. Hann kýs fremur samráðshóp en telur um leið rétt að senda flokksfélögum sínum tóninn. Í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði Steingrímur:

„Ég gef nákvæmlega ekkert fyrir þessa vitleysisumræðu sem búin er að vera í gangi undanfarna daga þar sem verið er að reyna að draga upp hetjur og skúrka.“

Þessar köldu kveðjur eru ekki aðeins ætlaðar Ögmundi heldur öllum VG-félögum sem hafa óskað eftir og krafist að Steingrímur J. gerði hreint fyrir sínum dyrum varðandi Grímsstaði og Nubo. Vinstri grænir sem vilja að formaður þeirra komi hreint fram hafa ástæðu til að óttast að sagan frá Magma-deilunum muni endurtaka sig. Þá lék Steingrímur J. Sigfússon tveimur skjöldum.

Fyrir almenna flokksmenn í VG sem munu sækja flokksráðsfund sem haldinn verður síðar í ágúst er vert að hafa sögu Magma í huga, þegar þeir reyna að berjast gegn því að Grímsstaðir séu afhentir kínverskum auðmanni.

Björk ánægð með fund

Í janúar 2011 gekk Björk Guðmundsdóttir söngkona á fund Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og afhenti henni undirskriftir 48 þúsund Íslendinga sem skoruðu á stjórnvöld að koma í veg fyrir sölu á HS Orku til Magma Energy. Einnig var skorað á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á auðlindum og nýtingu þeirra.

Jóhanna Sigurðardóttir var kát og sagði áskorunina í miklu samræmi við stefnu stjórnvalda.  Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon hittu Björk og félaga hennar sem stóðu að undirskriftarsöfnuninni. Fundurinn blés Björk von í brjóst því nokkrum dögum síðar fullyrti söngkonan í viðtali við kanadíska dagblaðið National Post að íslensk stjórnvöld ætli sér að endurheimta fyrirtækið HS Orku frá Magma Energy. Frá þessu greindi Eyjan og þar var haft eftir Björk:

„Þau [ríkisstjórnin] sögðu okkur að þau vilji fella samninginn úr gildi og tryggja að íslensk orkufyrirtæki og íslenskar orkuauðlindir verði í almannaeigu. Þeim er alvara.”

Samkvæmt frásögn Eyjunnar fullyrti Björk að einungis sé verið að ákveða með hvaða hætti verði staðið að því að fella kaupsamninginn úr gildi. Átta dögum eftir að Björk hafði fagnað kom í ljós að lítil innistæða var fyrir fagnaðarlátum. Í tilkynningu frá ríkisstjórninni 25. janúar sagði meðal annars:

„Á fundi ríkisstjórnarinnar var ákveðið að fela iðnaðarráðherra í samráði við fjármálaráðherra að taka þegar í stað upp viðræður við HS Orku hf., eigendur félagsins og sveitarfélögin sem eigendur auðlindanna og nýtingarréttar þeirra um styttingu leigutíma nýtingarréttar til samræmis við stefnumörkun stjórnvalda á því sviði. Að auki er lögð áhersla á að tryggja ríkinu ótímabundinn forkaupsrétt á hlutum Magma Energy Sweden AB í HS Orku hf. Jafnframt er lögð áhersla á að samið verði um kaup opinberra aðila og innlendra aðila eins og lífeyrissjóða á hlutum í HS Orku hf. með frekari kauprétti í framtíðinni.“

VG-félagar treystu forustunni

Félagar í Vinstri grænum um allt land höfðu enga ástæðu til að ætla annað en að þingmenn flokksins berðust gegn því að Magma Energy næði að eignast hlut í HS Orku.

Stjórn Vinstri grænna mótmælti harðlega áformum um framsal á jarðvarmaauðlindum á fundi sínum 21. ágúst 2009. Sérstök ályktun var samþykkt. Þrír ráðherrar VG sitja í stjórn flokksins. Steingrímur J. Sigfússon er formaður, Katrín Jakobsdóttir er varaformaður og Svandís Svavarsdóttir er meðstjórnandi. Alls sitja ellefu í stjórn VG.

Tilefni ályktunar stjórnar VG voru fréttir um væntanleg kaup kanadíska fyrirtækisins Magma Energy á meirihluta í HS Orku. Ályktunin hljóðaði svo:

„Stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs mótmælir harðlega áformum um varanlegt framsal á jarðvarmaauðlindum. Á erfiðleikatímum er freistandi að afla erlends gjaldeyris á kostnað auðlindanna en jafnframt hefur það sjaldnar verið mikilvægara að standa vörð um verðmæti þjóðarinnar og eignir landsins. Þjóðin er þegar skaðbrennd af ábyrgðarlausri frjálshyggju og einkavæðingu mörg undanfarin ár og nú er tími til kominn að snúa við blaðinu. Skorar stjórn VG á ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að gera allt í sínu valdi til að stöðva áform um framsal auðlindanna þegar í stað.“

Ályktun stjórnar Vinstri grænna var í samræmi við ályktun opins borgarafundar sem flokkurinn stóð fyrir í Grindavík, daginn áður. Þar var „áformum um varanlegt framsal á jarðvarmaauðlindum á Reykjanesi til Magma Energy og fyrirhugaðri einkavæðingu mótmælt“. Því var haldið fram að þjóðin væri þegar skaðbrennd af ábyrgðarlausri frjálshyggju og einkavæðingu mörg undanfarin ár. Fundurinn skoraði síðan á „ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að stöðva þessi áform þegar í stað“.

En þar með lauk ekki „baráttu“ VG gegn því að erlendir aðilar gætu eignast hlut í íslensku orkufyrirtæki. Á flokksráðsfundi á Hvolsvelli 28.-29. ágúst, eða viku eftir harða ályktun stjórnar flokksins var eftirfarandi samþykkt:

„Í þeirri vá sem nú vofir yfir þar sem Magma Energy og GGE eru nálægt því að eignast þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins og auðlindir á Reykjanesi er það brýnna en nokkru sinni fyrr að Vinstri græn stöðvi þessi áform. Flokksráðið beinir því til ráðherra sinna, þingmanna og sveitarstjórnarmanna að tryggja hagsmuni þjóðarinnar með því að halda HS orku í samfélagslegri eigu… Ljóst er að ekki er seinna vænna að breyta lögum og reglugerðum þannig að almannahagsmunir séu varðir og að samfélagslegt eignarhald orkufyrirtækja og orkuauðlinda sé tryggt.“

Traust almennra flokksmanna var ekki síst bundið við Steingrím J. Sigfússon formann flokksins. Þetta kemur t.d. ágætlega í ljós í ályktun VG í Skagafirði í september 2009:

„Stjórn Svæðisfélags Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Skagafirði skorar á þingmenn og ráðherra flokksins, sérstaklega formann flokksins og fjármálaráðherra, að koma í veg fyrir erlent eignarhald á orkuauðlindum þjóðarinnar.“

Ögmundur Jónasson var harður andstæðingur þess að Magma Energy fengi að hasla sér völl á íslenskum orkumarkaði. Í pistli á heimasíðu sinni 24. maí 2010 sagði hann meðal annars:

„Við stöndum frammi fyrir þeirri raunverulegu hættu að auðlindirnar renni okkur allar úr greipum.“

Ögmundur lauk síðan greininni með því að krefjast þess að allt væri sett upp á borðið – „rannsókn þarf að fara fram þegar í stað – og búa svo um hnúta að orkuauðlindirnar verði  tryggðar í almannaeign“.

Nokkrum dögum áður en Ögmundur skrifaði pistilinn samþykkti þingflokkur VG ályktun þar sem segir m.a. að full þörf sé á að rannsaka allt „ferlið“.

Skrif Ögmundar voru í góðu samræmi við samþykkt flokksráðsfundar Vinstri grænna í júní 2010 þar sem eindregið var lagst „gegn sölu eða langtímaframsali á orkuauðlindum og orkufyrirtækjum“.  Flokksráðsfundurinn taldi nauðsynlegt að nefnd um erlendar fjárfestingar taki kaup Magma á HS-Orku aftur til umfjöllunar. Síðan sagði í ályktun:

„Til að tryggja yfirráð almennings yfir orkufyrirtækjum og vinda ofan af kaupum Magma á HS-Orku er mikilvægt að hér verði sett lög sem fela í sér óskoruð yfirráð hins opinbera á orkufyrirtækjum. Flokksráðsfundur brýnir ráðherra og þingmenn VG að hraða gerð slíks frumvarps og hvetur jafnframt til þess að gripið sé til allra ráða þannig að HS-Orka komist aftur í almenningseigu í samræmi við fyrri samþykktir flokksráðs og annarra stofnana flokksins.  Þar á meðal verða eignarnámsaðgerðir ekki útilokaðar.“

Vantar aðeins pólitískan vilja

Ríkisútvarpið greindi frá því 24. júlí 2010 að þingflokkur Vinstri grænna teldi að aðeins þyrfti pólitískan vilja til að „bola“ Magma Energy burt. Í frétt á ruv.is sagði:

„Þingflokksformaður Vinstri grænna segir ríkisstjórnarsamstarfið ekki þess virði takist ekki að afstýra því að Magma noti auðlindina næstu 130 árin. Pólitískur vilji sé allt sem þarf til að bola Magma Energy burt. Þingflokkur Vinstri grænna fundaði í gær og var einróma sammála um það að ógilda þurfi Magma samninginn og rannsaka tildrög hans. Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, sat fundinn aðeins í blálokin en fimm ráðherrar funda nú um niðurstöðu málsins og ætla að kynna hana í næstu viku.“

Haft var eftir Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þingflokksformanni, að ríkisstjórnin hafi vald til þess að ógilda samninginn um kaup Magma á HS Orku. Guðfríður Lilja sagði að ríkisstjórn sem ekki hafi burði í sér til að verja auðlindir Íslands sé ófær að verja almannahagsmuni – „þá sé stóra spurningin: til hvers er setið“.

Sama dag sagði Guðfríður Lilja í viðtali við Stöð 2 að hún muni ekki styðja ríkisstjórnina nema að ráðherrar hennar beiti sér fyrir því að samkomulagið um kaup Magma Energy á hlut í HS Orku verði rift.

Í nóvember 2010 ítrekaði flokksráð VG andstöðuna við sölu eða langtímaframsali á orkuauðlindum og orkufyrirtækjum:

„Öll stærri orkufyrirtæki eiga að vera í fullri eigu almennings. Flokksráðsfundur skorar á ráðherra og þingmenn VG að grípa til allra tiltækra ráða svo að HS-Orka komist aftur í almenningseigu í samræmi við fyrri samþykktir flokksráðs og annarra stofnana flokksins. Jafnframt beiti þau sér fyrir því að opinber rannsókn verði hafin á sölu á HS Orku til Magma Energy. Engan undanslátt má gefa frá yfirlýstum loforðum ríkisstjórnarinnar um að undið verði ofan af einkavæðingu HS Orku.“

Samþykktir flokksstofnana VG voru í anda þess sem formaður flokksins hafði boðað. Í Fréttablaðinu 20. ágúst 2009 sagði Steingrímur J. Sigfússon:

„Ég geld mikinn varhug við því að menn hendi sér út í einkavæðingu á þessum gríðarlega mikilvægu undirstöðum í okkar hagkerfi sem þarna eru.“

VG-liðar stóðu í þeirri trú að pólitísk samstaða hefði tekist á milli stjórnarflokkanna. Eftir ríkisstjórnarfund í júlí 2010 sagði Jóhanna Sigurðardóttir:

„Það er ásetningur ríkisstjórnarinnar að vinda ofan af einkavæðingu í orkugeiranum og tryggja að orkufyrirtæki séu í eigu opinberra aðila.“

Og Steingrímur bætti við:

„Þetta er grundvallarstefnubreyting stjórnvalda í auðlindamálum.“

Það kannski ekki að furða að Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason hafi meðal annars nefnt Magma málið, þegar þau ákváðu að segja skilið við þingflokk Vinstri grænna í mars 2011. Í yfirlýsingu sögðu þau meðal annars:

„Magma – Þvert á ítrekaðar samþykktir flokksráðs og þingflokks VG var ekkert aðhafst af hálfu forystunnar til að koma í veg fyrir áframhaldandi einkavæðingu HS Orku. Ríkisstjórnin hafði það í hendi sér að koma í veg fyrir þessa alvarlegu þróun og gat m.a. gengið inn í kaup Magma á HS Orku á sínum tíma en slíkt var ekki gert. Á sama tíma lagði ríkisstjórnin hins vegar um 11,5 milljarða í Sjóvá og veitti VBS og Saga Capital verulega fyrirgreiðslu án nokkurs samráðs.“

En VG-liðlar héldu áfram að samþykkja ályktanir um Magma og eignarhaldið á HS Orku, líkt og ekkert hefði í skorist. Flokksráðsfundur VG í ágúst 2011 ályktaði:

„Flokksráðfundur VG, haldinn á Hótel Loftleiðum 26. – 27. ágúst 2011 skorar á þingflokk og ráðherra VG að koma Hitaveitu Suðurnesja aftur í almenningseigu, enda er það í fullu samræmi við stefnu flokksins og ríkisstjórnarinnar um þjóðareign á auðlindum.“

Það eru ekki aðeins almennir flokksmenn í VG sem þurfa að hafa áhyggjur af því að sagan sé að endurtaka sig. Landsmenn allir eiga að hafa áhyggjur. Líklegt er að einstakar flokksdeildir VG muni álykta um Grímsstaða-málið. Flokksmenn eru duglegir við að samþykkja ályktanir. Ályktanir skiptu engu varðandi Magma.