Ríkisstjórnin er byrjuð að undirbúa útgáfu sérstakra kosningavíxla, enda ekki seinna vænna þegar aðeins eru níu mánuðir til kosninga. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra boðar sérstaka útgáfu víxla í grein sem hún skrifar í Fréttablaðið í dag. Hækka á barnabætur og hækka fæðingarorlofsgreiðslur og lengja orlofið. Með þessu ætlar forsætisráðherra að rétta hlut stjórnarflokkanna í komandi kosningum. Gjalddagi víxlanna verður eftir kosningar.

Í grein sinni segir Jóhanna orðrétt:

„Þannig hefur ríkisstjórnin uppi áform um að auka stuðning við barnafjölskyldur með hækkun barnabóta. Reynslan hefur kennt okkur að það er markviss aðgerð sem nær til ungra skuldugra fjölskyldna með börn á framfæri. Sömuleiðis er ætlunin að hækka fæðingarorlofsgreiðslur og lengja fæðingarorlofið í áföngum.”

Í viðtali við Fréttablaðið virðist Jóhanna draga nokkuð í land. Það er aðeins verið að kanna málið:

„Við sjáum fram á að það muni skýrast á næstunni hvort við getum gert eitthvað í barnabótum og fæðingarorlofi.”

Þegar blaðamaður spyr hvort vinna sér hafin við þessar breytingar svarar Jóhanna:

„Jú jú, hún hefur verið í undirbúningi og það er farið að leggja línur í því sem ég hef nefnt. Ég geri ráð fyrir því að við sjáum þessu stað í fjárlagafrumvarpinu sem lagt verður fram í september.”

Þannig eru áform í blaðagrein orðin að könnun á því hvort hægt sé að gera “eitthvað í barnabótum og fæðingarorlofi” og verið er að leggja línur. Síðan segist forsætisráðherrann gera ráð að hækkun bóta og orlofs rati inni í fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. En forsætisráðherra virðist ekki viss. Í viðtali við Fréttablaðið segir Jóhanna:

„Ég er að vona að við getum stigið skref áfram í þessu máli.”

Er nema von að spurt sé: Hvaða leikrit er verið að setja í gang og hversu háa og marga kosningavíxla ætla Jóhanna og Steingrímur J. að gefa út í pólitískri örvæntingu sinni í aðdraganda kosninga?