Hörðustu talsmenn réttarríkisins hafa haldið því fram að betra sé að sleppa 100 sekum mönnum en að sakfellda og dæma einn saklausan mann til fangavistar. Fáir deila um mikilvægi þess að allir fái réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum – jafnt þeir sem gerst hafa sekir um að brjóta lög og þeir sem saklausir eru. Réttlát málsmeðferð, óháð sekt eða sýknu, er

Dómstólar
hamar

mikilvægur hornsteinn réttarríkisins.

Það er þungbær reynsla fyrir alla venjulega einstaklinga að sæta ákæru hins opinbera. Þurfa að verja hendur sínar fyrir dómstólum. Oftar en ekki er staða sakborninga ójöfn í baráttunni við hið opinbera ákæruvald, þó dæmi séu um að þessu sé öfugt farið. Einmitt vegna þessa hefur verið talið mikilvægt að tryggja rétt þeirra sem sæta ákæru.

Í þriðju tilraun var Haukur Þór Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum, dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 18 mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt. Haukur var sýknaður eftir fyrstu meðferð málsins í héraðsdómi, en dæmdur í tveggja ára fangelsi í annað skiptið.

Hér verður ekki tekin afstaða til þess hvort viðkomandi hafi brotið lög eða ekki. En það er með hreinum ólíkindum að einstaklingur þurfi að sæta því að koma þrisvar fyrir héraðsdóm fyrir sömu ákæru. Í fyrsta skipti komst dómari að þeirri niðurstöðu að Haukur Þór væri saklaus.

En Hæstiréttur var ekki ánægður og vísaði málinu aftur í hérað meðal annars vegna þess að dómari hefði ekki tekið nægjanlegt tillit til ákveðinna gagna. Málið var aftur tekið fyrir og  þá var Haukur Þór fundinn sekur og dæmdur í tveggja ára fangelsi. En Hæstiréttur vísaði málinu aftur í hérað. Í þriðja sinn hefur héraðsdómur fellt sinn dóm og í þetta skipti var Haukur Þór dæmdur í 18 mánaða fangelsi.

Í liðlega tvö ár hefur einstaklingur þurft að sæta því að koma fyrir héraðsdóm þrisvar sinnum fyrir sömu sakir og í öll skiptin hefur dómurinn komist að mismunandi niðurstöðu. Fyrst sýknu en síðan sakfellingu en misþungri refsingu. Nú á Hæstiréttur eftir að segja sitt, þar sem málinu verður áfrýjað.

Það er með engum rökum hægt að halda því fram að málsmeðferðin hafi verið réttlát. Enginn á að þurfa að sæta því að vera leiddur þrisvar sinnum fyrir dómara fyrir sömu sakir.

Dómstólar hafa brugðist. Maður sem nú hefur verið dæmdur í fangelsi er ekki eina fórnarlambið heldur þjóðfélagið allt.