Vegna ákvæða nýrrar byggingarreglugerðar verður lagður um eins milljarðs króna „skattur“ á húsbyggjendur á hverju ári. Ný byggingarreglugerð krefst þess að einangrun húsa verði aukin og má áætla að aukakostnaður vegna þess sé um ein milljón fyrir 200 fermetra einbýli og um tvær milljónir ef rými hússins á að vera það sama og áður. Þetta er um 3% af byggingarkostnaði.

Þessar upplýsingar koma fram í grein sem Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannarr, skrifaði í Morgunblaðið 19. júlí síðastliðinn. Hannar er ráðgjafafyrirtæki á sviði rekstrar og bygginga og var stofnað árið 1968.

Sigurður bendir á að reikna megi með að hús sem byggt var samkvæmt síðustu byggingarreglugerð noti „um 0,8-1,0 rúmmetra af heitu vatni á ári til upphitunar á hvern rúmmetra húss (ekki neysluvatn) og þar af fari umtalsverður hluti í að hita lotfskipti hússins“. Þetta er um 660 rúmmetrar fyrir 200 fermetra einbýli eða 83 þúsund krónur á ári miðað við verðskrá Orkuveitunnar:

„Aukin einangrun skilar húsbyggjandanum á bilinu 15-20% sparnaði, eftir því hversu mikið tapast af hita hússins með loftskiptum. Það gerir 12-17.000 í krónur í sparnað á ári.

Hafi húsbyggjandinn fengið þennan viðbótarpening sem aukin einangrun kostar, að láni, þarf hann að greiða vexti af honum sem eru 4,1% auk verðtryggingar í dag, eða um 82.000 kr. á ári, og lánið stendur þá áfram í sömu upphæð, verðtryggðri. Sé litið á þennan vaxtakostnað sem hluta af upphitunarkostnaði hússins og dreginn frá sparnaður í upphitun þess vegna aukinnar einangrunar hækkar þessi aukna krafa um einangrun upphitunarkostnað þessa húsbyggjanda um allt að helming, í stað þess að spara honum pening. Hér virðist eitthvað hafa gleymst í útreikningunum, eða að þeir hafi e.t.v. aldrei verið gerðir.“

Niðurstaða Sigurðar er því þessi:

„Húsbyggjandinn greiðir þennan aukakostnað og fær hann aldrei til baka í lækkuðum upphitunarkostnaði. Því má líta á þetta sem skatt á húsbyggjandann.“

Sé miðað við eðlilegan fjölda nýbygginga nemur þessi skattur um einum milljarði króna samkvæmt útreikningum Sigurðar:

“Fyrir þann pening mætti t.d. byggja 16 einbýlishús af ofangreindri stærð eða 43 íbúðir sem væru um 100 m² að stærð.“

Sigurður spyr síðan hverjir taki ákvarðanir af þessu tagi og á hvaða forsendum:

„Gleymdist að reikna dæmið til enda? Er e.t.v. verið að taka upp erlenda staðla án skoðunar á áhrifum þeirra hér? Er eðlilegt og heimilt að leggja þennan skatt á húsbyggjendur? Er of seint að leiðrétta þessa reglugerð?“