Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon eiga eitt sameiginlegt umfram margt annað. Sem stjórnarandstæðingar voru þau talsmenn þess sem nú er kallað á fínu máli beint lýðræði – aukins réttar landsmanna til að kjósa um mikilvæg mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sem forystumenn í ríkisstjórn, í rúm þrjú ár, hafa þau fjórum sinnum fengið tækifæri til láta drauminn rætast. Í öll skiptin börðust þau gegn því að leitað yrði álits þjóðarinnar. Af minna tilefni hefði verið sagt að verið væri að draga kjósendur á asnaeyrunum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eftir kosningar 2009 sagðist ríkisstjórnin ætla að „beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum”. Þetta var í samræmi við stefnu beggja stjórnarflokkanna, orð og yfirlýsingar formanna flokkanna.

„Treystum við ekki þjóðinni?” spurði Steingrímur J. í þingræðu 4. mars 2003. Þá vildi hann að bygging Kárahnjúkavirkjunar yrði sett í þjóðaratkvæði. „Stundum heyrist að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði,” sagði Steingrímur og bætti við:

„Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég heyri.”

Ósk fólksins

Eftir að Steingrímur J. settist í stól fjármálaráðherra var hann í orði fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Í umræðum um frumvarp til stjórnskipunarlaga 8. apríl 2009 sagðist hann ekki eiga í »vandræðum með að þjóðin taki til sín og ákveði með lýðræðislegum hætti í almennum atkvæðagreiðslum mikilvæg mál eða að þjóðin taki í sínar eigin hendur að semja sér stjórnarskrá«. Steingrímur gaf út þá yfirlýsingu að það sé »ekki þannig að lýðræðið megi bara vera virkt á fjögurra ára fresti« heldur eigi það að vera virkt alla daga. »Það er ósk fólksins í dag,« bætti formaður VG við.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur í mörg ár talað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum og lagt fram frumvörp þess efnis. Í pistli sem birtist 29. desember 1998 skrifaði hún meðal annars:

„Hér á landi búum við gjarnan við samsteypustjórnir og með slíkum ríkisstjórnum er auðveldara að semja sig frá kosningaloforðum.”

Þessi orð Jóhönnu rættust rækilega nær ellefu árum síðar þegar Vinstri grænir lögðu til hliðar (sumir segja sviku) stefnu sína í Evrópusambandsmálum í samsteypustjórn með Samfylkingunni.

Innantóm orð

Í aðdraganda kosninganna 2009, gerðu margir Íslendingar sér vonir um að tími breytinga væri í vændum. Með opinni og gagnsærri stjórnsýslu, auknum rétti almennings til upplýsinga og beinu lýðræði, væri hægt að koma í veg fyrir spillingu og tryggja að sagan frá 2008 endurtæki sig ekki. Með stefnuskrá Samfylkingar og Vinstri grænna í huga og þó ekki síst orð og yfirlýsingar forystumanna flokkanna í gegnum árin, gengu kjósendur að kjörborði og tryggðu flokkunum góðan meirihluta á Alþingi.

Orðin og yfirlýsingarnar hafa reynst innantóm og merkingarlaus. Í huga Jóhönnu og Steingríms J. þýðir beint lýðræði aðeins að almenningur hafi rétt til að segja sitt álit þegar og ef meirihlutinn er hlynntur stefnu ríkisstjórnarinnar.

Jóhanna og Steingrímur J. fengu tækifæri til að standa við fögur loforð í júlí 2009 þegar lagt var til á Alþingi að bera það undir kjósendur hvort rétt væri að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Bæði greiddu atkvæði gegn þeirri tillögu enda Steingrímur búinn að »semja sig frá kosningaloforðum«.

Andstaða Steingríms J. við þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB er í hróplegri mótsögn við það sem hann hefur áður sagt, meðal annars í þingræðu í mars 2003:

„Það dettur engum í hug að við göngum í Evrópusambandið nema þjóðin sjálf taki ákvarðanir í því máli jafnvel bæði hvort

Jóhanna
Steingrímur