Í febrúar 2008 báru 44% landsmanna mikið traust til Alþingis. Á einu ári hrundi traustið og aðeins 13% landsmanna sögðust bera mikið traust til löggjafarsamkomunnar, samkvæmt könnun Capacent í febrúar 2009. Þá settist Jóhanna Sigurðardóttir í stól forsætisráðherra. Þremur árum síðar var traustið komið niður í 10%.

Traust til Alþingis

Þegar hlustað er á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, er erfitt að verjast þeirri hugsun að ráðherrann lifi í pólitísku tómarúmi – eða í einangrun þar sem veruleikinn skiptir litlu eða engu máli. Þjóðhátíðarræða Jóhönnu Sigurðardóttur á Austurvelli síðastliðinn sunnudag var ágætt dæmi.
Eftir að hafa hælt sjálfri sér og ríkisstjórn sinni fyrir góðan árangur, vék Jóhanna að því að enn ríki „talsverð reiði í samfélaginu og hatrömm átök eiga sér stað á vettvangi stjórnmálanna“. Forsætisráðherra sagði að átökin væru hatrammari en „ég hef áður upplifað á mínum 34 ára ferli sem þingmaður og ráðherra“:

„Afleiðingar þessa sjáum við meðal annars birtast í gríðarlegu vantrausti á mörgum mikilvægustu stoðum lýðræðisins í okkar samfélagi, aukinni vantrú á stjórnmálin og starfandi stjórnmálaflokka, þverrandi virðingu Alþingis, stjórnar- og stjórnarandstöðu og margra æðstu stofnana samfélagsins.“

Jóhanna sagði óeiningu og vantraust á helstu stofnunum samfélagsins sé mikið áhyggjurefni:

„Ábyrgðina berum við, kjörnir fulltrúar þjóðarinnar og enn sem komið er hefur okkur að miklu leyti mistekist í þessu mikilvæga verkefni, að endurvinna traust þjóðarinnar. Þetta þykir mér mjög miður. Úr þessu verðum við að bæta á næstu misserum ef ekki á illa að fara.“

Um það verður ekki deilt að þingmenn bera sameiginlega ábyrgð á virðingu Alþingis – að helgasta stofnun landsins njóti trausts meðal landsmanna. Enginn ber þó meiri ábyrgð í þeim efnum en forsætisráðherra á hverjum tíma. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins hefur rétt fyrir sér þegar hann skrifar:

„Enginn einn einstaklingur hefur meira um það að segja hvernig virðingu þings vindur fram en forsætisráðherra landsins á hverjum tíma. Forsætisráðherrann mótar hvernig framkvæmdavaldið umgengst löggjafarsamkunduna, hvernig meirihluti þingsins gengur fram og hvort hann sjái til þess að sá sem gegnir embætti Forseta þings fái notið sín og gætt starfs síns. Allt þetta þrennt hefur farið hraklega.“  

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, bendir á að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon eigi samtals 63 ára þingreynslu að baki. Í stuttum pistli á Evrópuvaktinni heldur Björn því fram að þessir tveir forystumenn ríkisstjórnarinnar beri höfuðábyrgð á yfirbragði þinghaldsins og þó sérstaklega Jóhanna:

„Hin síðari ár (áður en hún settist í ríkisstjórn) hefur enginn þingmaður talað eins mikið um ábyrgð ráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir. Eftir að lokaábyrgð á störfum alþingis leggst á hennar herðar leyfir hún sér að láta á þann veg á Austurvelli við stall Jóns Sigurðssonar eins og að ábyrgðin sé annarra.

Deilur síðustu daga þingsins snerust um illa unnin frumvörp frá Steingrími J. Sigurðssyni sem ganga ekki aðeins gegn þjóðarhagsmunum heldur standast ekki kröfur sem ber að gera til þingmála. Allar yfirlýstar reglur um samráð og vönduð vinnubrögð voru brotin. Þar ber Jóhanna að sjálfsögðu einnig ábyrgð. Eitt af því sem hún hreykir sér af er að hafa komið á gæðaeftirliti með lagafrumvörpum ráðherra í forsætisráðuneytinu.

Hokin af 63 ára þingreynslu hverfa þau Jóhanna og Steingrímur J. nú frá einu ömurlegasta þinghaldi í manna minnum. Ábyrgðin á ósköpunum er þeirra.“

Í huga Jóhönnu er ekkert samhengi á milli minnkandi virðingar Alþingis og innantómra loforða um þúsundir nýrra starfa. Jóhanna telur að vantraust almennings á löggjafarsamkomunni verði ekki skýrð með því að meirihluti þingsins hafi ítrekað reynt að koma Icesave-skuldum Landsbankans yfir á almenning og hundsað niðurstöðu tveggja þjóðaratkvæða. Í tómarúmi sínu er Jóhanna sannfærð um að aðildarviðræður við Evrópusambandinu gegn meirihluta þjóðarinnar, sé ekki til þess fallin að minnka traust á Alþingi. Síendurtekin innantóm loforð um skjaldborg um heimilin og úrlausn á vanda þeirra, hefur ekkert með það að gera að almenningur ber æ minna traust til þingsins. Jóhanna er sannfærð um að þó ríkisstjórn dæli inn tugum lagafrumvarpa (sum illa unnin) á lokadegi, hafi það engin áhrif á viðhorf kjósenda til starfshátta Alþingis. Í hennar huga er það bara dæmi um hatrömm átök, sem draga úr virðingu þingsins, þegar stjórnarandstaðan neitar að stunda færibandavinnu við lagasetningu.