Carlo Ponzi

Carlo Ponzi var uppvaskari frá Parma á Ítalíu. Árið 1903 leitaði hann betra lífs og fluttist til Bandaríkjanna. Hann var með tvo dollara og fimmtíu sent í vasanum en lét sig dreyma um milljónir dollara. Draumurinn rættist, að minnsta kosti tímabundið en áður hafði Ponzi unnið við ýmislegt í Bandaríkjunum og Kanada. Hann sat í fangelsi vegna ávísanaþjófnaðar.

En Ponzi þekkti mannlegt eðli. Hann stofnaði fyrirtækið Securities Exchange Company í Boston. Með persónutöfrum tókst honum að telja fjárfestum trú um að hann gæti boðið þeim 50% ávöxtun peninga á sex vikum. Fyrstu fjárfestarnir nutu gríðarlegrar ávöxtunar. Þeir gerðu sér hins vegar enga grein fyrir því að ávöxtunin var greidd af peningum þeirra sem á eftir komu. Blekkingin hélt áfram og stöðugt fjölgaði fjárfestunum, sem margir hverjir veðsettu húsins sín til að auðgast með þeim ótrúlega hætti sem Ponzi lofaði. Boltinn hélt áfram að rúlla og varð æ stærri. Að lokum komst upp um svindlið og Ponzi sat í nokkur ár í fangelsi. Hann hraktist síðar til Ítalíu og þaðan til Brasilíu, þar sem hann lést snauður og yfirgefinn árið 1949. En nafnið lifir ekki síst í hugum afbrotafræðinga og hagfræðinga. Ponzi-kerfið (Ponzi scheme) er hugtak í hagfræðinni sem lýsir því þegar eldri skuldir eru greiddar með taka stöðugt ný lán og þannig rúllar snjóboltinn áfram. Þetta pýramíta-kerfi byggist á því að lánum og vöxtum er stöðugt ýtt inn í framtíðina með stöðugum lántökum.

Þúsundir svikahrappa hafa leikið sama leikinn og Ponzi. Stærsta svikamyllan var tæpum 90 árum eftir að Ponzi blekkti íbúa Boston. Bernard Madoff, náði meiri árangri en nokkur annar með pýramítkerfi sínu en talið er að fjárfestar hafi tapað um 20 milljörðum dollara á svikunum.

Vestræn ríki hafa hegðað sér með svipuðum hætti og Madoff undanfarna áratugi. Nær allir lifðu um efni fram í Evrópu og í Bandaríkjunum – allt frá neytendum til stjórnmálamanna, frá ríkssjóðum til fyrirtækja.

Snjóbolltinn stækkar

Stöðugt berast fréttir af skuldavanda og margir óttast að snjóbolltinn verði aðeins stærri og stærri á nýju ári og rúlli hraðar en áður.

Bankar í Evrópu þurfa að standa undir 725 milljarða evru greiðslum á lánum á árinu 2012, þar af eru 280 milljarða evrur á fyrsta ársfjórðungi. Fjármálamarkaðir eru í raun lokaðir fyrir bankana og því verða bankarnir að reiða sig á Seðlabanka Evrópu [ECB], sem hefur veitt þeim nær ótakmörkuð lán á lágmarks vöxtum.

Einstök ríki glíma við gríðarlegan vanda. Ítalía þarf að standa skil á um 300 milljörðum evra á árinu. Seðlabanki Evrópu er farinn að fjármagna ríkin. Björgun bankakerfisins á Spáni er gálgafrestur. Björgunarsjóður evruríkjanna er þegar búinn að ráðstafa hundruðum milljarða evra til Grikklands, Portúgals og Írlands. Þjóðirnar eru skuldsettar til að greiða eldri skuldir. Og þarf sem bjrögunarsjóðurinn er ekki nægilega stór hafa fjármálaráðherrar ríkja evrunnar ákveðið að „skuldsetja“ sjóðinn með því að fá utanaðkomandi fjárfesta líkt til að leggja honum til fé.

Svo eru það Bandaríkin, sem aðeins hafa tryggt greiðsluhæfi með því að hækka stöðugt leyfilega skuldsetningu ríkisins. Bandaríkin skulda lánadrottnum 15 billjónir dollara og skuldirnar halda áfram að hækka.

Þannig eru snjóboltar farnir af stað um alla Evrópu og Bandaríkin og þeir stækka og stækka. Skuldsetning Vesturlanda minnir óþægilega á risavaxna Ponzi-svikamyllu. Eini munurinn er sá að ný er myllan lögleg.

Lífið fjármagnað með skuldum

Eldri skuldir eru greiddar með nýjum lánum og lántakendur virðast ekki leiða hugann að framtíðinni. Þannig hefur þetta gengið í alla þessa öld og raunar lengur. Það var aðeins þegar fjármálakreppan hófst árið 2007 og í kjölfar ótrúlegra dýrra björgunaraðgerða banka og hagkerfa, sem það rann upp fyrir almenningi að heimsbyggðin lifði á lánum.

Margt bendir til að skuldasúpa heimsins sé verri en þeir svartsýnustu hafa talið. Jafnvel Þýskaland – fyrirmyndaríkið – stefnir að óbreyttu í vandræði. Á þriðja ársfjórðungi liðins árs jukust opinberar skuldir um 10,8 milljarða evra. Þjóðverjar juku því skuldir sínar um 120 milljónir evra á hverjum degi eða um 80 þúsund á hverri mínútu milli júlí og september.

Það lýsir ástandinu vel að Þjóðverjar hafa þótt fyrirmynd annarra þjóða. Aðrar þjóðir hafa verið miklu duglegri við skuldasöfnunina. Staða í efnahagsmálum skiptir engu. Ríkin hafa safnað skuldum jafn í góðæri sem í slæmu árferði.

Þrátt fyrir að njóta hagvaxtar tvöfölduðust skuldir ríkja heims á fyrsta áratug aldarinnar. Áætlað er að skuldir ríkja hafi í heild verið um 55 billjónir dollara í lok síðasta árs. Skuldsettasta land heims eru Bandaríkin sem skulda um 15 billjónir dollara, eins og áður segir, sem er jafnt og árleg þjóðarframleiðsla. Japan skuldar um 13 billjónir.

Nú er svo komið að aðeins 14 ríki í heiminum eru með hæstu lánshæfiseinkunn þriggja helstu lánshæfisfyrirtækja.

Til lengri tíma litið mun það enda með skelfingu að ríki eyði um efni fram og safni stöðugt skuldum og velti þannig vandanum á undan sér til komandi kynslóða. Stöðug skuldasöfnun gengur á meðan ríkin njóta traust – trúverðugleika – meðal lánadrottna. En um leið og traustið hverfur, hrynur krefið með sama hætti og Ponzi-svikamyllan. Gjaldþrot þjóðar er langt í frá að vera óþekkt í hagsögu Vesturlanda. Frakkland lýsti átta sinnum yfir gjaldþroti 1500 til 1800. Sjö sinnum gat Spánn ekki staðið undir skuldbindingum sínum á 19. öldinni. Grikkland barðist stöðugt við greiðslufall og endurfjármögnun skulda á fyrri hluta 19. aldar.

Auðvitað geta verið góðar ástæður fyrir því að stofna til skulda. Fyrirtæki taka lán til að standa undir fjárfestingum sem síðar skila vonandi arði og standa undir vöxtum og afborgunum. Einstaklingar nýta sér lán til kaupa á íbúðum og bílum. Flestir gera sér grein fyrir að þeir þurfa að nýta hluta tekna sinna til að standa undir vöxtum og afborgunum. Með sama hætti getur það verið skynsamlegt fyrir hið opinbera að ráðast út í fjárfestingar sem fjármagnaðar eru með lánum. Þetta á við þegar lánsfé er nýtt til að byggja upp innviði, svo sem skóla, vegi og brýr, sem komandi kynslóðir munu njóta góðs af. Hægt er að réttlæta slíka skuldsetningu og láta þá sem eftir koma taka þátt í kostnaðinum.

Vandinn er hins vegar sá að skuldasöfnun hins opinbera hefur að takmörkuðu leyti verið vegna fárfestinga í innviðum. Ríki og sveitarfélög hafa stofnað til nýrra skulda til að standa undir daglegum rekstri og til að greiða eldri lán. Þýski hagfræðingurinn Adolph Wagner, benti á að hið opinbera hafi tilhneigingu til að þenjast stöðugt út. Samkvæmt lögmáli Wagners, leitar ríkisvaldið stöðugt að nýjum verkefnum, án þess að nokkur leiði hugann að því hvort verkefnin séu nauðsynleg eða borgi sig. Útþenslan þjóni aðeins einum tilgangi; að réttlæta tilvist ríkisvaldsins. En óháð Wagners-lögmálinu, er ljóst að á undanförnum áratugum hefur stór hluti þeirra skulda sem ríki og sveitarfélög hafa stofnað til, farið í að fjármagna hreina sóun.

Auðvitað eru til einstaklingar og fyrirtæki sem hafa skuldsett sig langt umfram alla skynsemi. En það er mikill munur á skuldum ríkisins og skuldum einkaaðila. Yfirleitt leggja einkaaðilar fram veð eða tryggingar fyrir lánum. Veðhæfi ríkissjóða er yfirleitt ekki hægt að festa hendur á. Ríkissjóðir njóta þeirra forréttinda að geta gefið út skuldaviðurkenningar án raunverulegra trygginga – prentað ný og ný verðbréf í stað þeirra eldri sem falla í gjalddaga. Skuldir eru ekki greiddar heldur endurfjármagnaðar. Með öðrum orðum, skuldum er velt yfir á komandi kynslóðir. Þannig hefur stjórnmálamönnum tekist að komast upp með lausung í stjórnun opinberra fjármála.

Til að gera skuldabréf ríkisins enn eftirsóknaverðari og auðveldari í sölu, þurfa bankar, sparisjóðir og tryggingafélög ekki að reikna ríkisskuldabréf inn í áhættugrunn. Aðrar lánveitingar banka eru bundnar við eigið fé.

Með þessu hefur verið búin til blekking um frelsi frá áhættu. Afleiðingin er sú að undanlátssemin og lausungin í opinberum fjármálum er viðvarandi vandamál. En að lokum lætur eitthvað undan líkt og kerfið hrynur eins og spilaborg. Ponzi-kerfið er alltaf dæmt til að hrynja fyrr eða síðar.