Það skal dregið í efa að nokkur önnur frjáls þjóð hafi staðið jafn illa að verki við hugsanlegar breytingar á stjórnarskrá og við Íslendingar. Undir leiðsögn og forystu Jóhönnu Sigurðardóttur hefur málið klúðrast – ríkisstjórnin hefur ratað á villigötur.

Í nóvember 2009 lagði Jóhanna Sigurðardóttir fram frumvarp um skipan stjórnlagaþings. Ári síðar var efnt til kosninga. Kjörsókn var minni en í nokkrum öðrum kosningum á landsvísu frá árinu 1894, en þó hélt forsætisráðherra því fram að „þjóðin“ kallaði eftir stjórnlagaþingi og breytingum á stjórnarskrá.

Hæstiréttur ógilti kosninguna. Hver bar ábyrgðina?

Jóhanna Sigurðardóttir þingmaður var dugleg við að benda á að samfara valdi fylgi ábyrgð. Vegna þessa verði að styrkja lög um ráðherraábyrgð. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra telur hins vegar að sá sem valdið hefur þurfi ekki að bera ábyrgð á framkvæmd kosninga sem reyndust ólöglegar. Ekki sé einu sinni nauðsynlegt að biðjast afsökunar á því sem miður fór.

Ábyrgðarlaus

Þegar Jóhanna gaf Alþingi munnlega skýrslu vegna niðurstöðu Hæstaréttar 25. janúar 2011 sagði hún það „auðvitað fráleitt“ að „vísa málinu og ábyrgð á því á hendur forsætisráðherra og ríkisstjórn eins og stjórnarandstaðan er að reyna að gera“:

„Við vitum það ef þingmenn lesa niðurstöðu dómstólanna að það liggur fyrir að athugasemdir Hæstaréttar lúta ekki að upphaflegu frumvarpi ríkisstjórnarinnar heldur fyrst og fremst að framkvæmdinni og það er einungis eitt atriði sem á rætur að rekja til ákvæða laganna um stjórnlagaþing og það kom inn í lögin að ósk landskjörstjórnar.“

Jóhanna Sigurðardóttir og ríkisstjórnin öll var því ábyrgðarlaus og ef einhver skyldi bera ábyrgð var það landskjörstjórn – líklega vegna þess að hún „plataði“ meirihluta þingmanna til að samþykkja breytingar á frumvarpi forsætisráðherra.

Niðurstaða Hæstaréttar kom ekki í veg fyrir að haldið skyldi áfram. Jóhanna Sigurðardóttir brýndi þingmenn í áðurnefndri ræðu:

„Ég segi, það síðasta sem við eigum að gera er að gefast upp við þetta stóra lýðræðismál sem þjóðin er að kalla eftir.“

Lögin um stjórnlagaþing voru felld úr gildi. Þess í stað var samþykkt þingsályktun um skipan stjórnlagaráðs sem skyldi skipað þeim sem náðu kjöri í hinum ógildu kosningum. Farið var á svig við niðurstöðu Hæstaréttar.

„Algjört klúður“

Stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum 29. júlí 2011. Engin efnisleg umræða átti sér stað í þingsal Alþingis um kosti og galla þeirra tillagna sem stjórnlagaráð lagði fram. Þingmenn hafa forðast eins og heitan eldinn að taka afstöðu í þessu vandræðamáli.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis komst strax í ógöngur. Í umsögnum óháðra aðila komu fram alvarlegar athugasemdir við tillögur stjórnlagaráðs. Nefndin hafði ekki burði til þess að taka efnislega afstöðu til hugmynda stjórnlagaráðs né til þeirra athugasemda sem bárust. Þess vegna taldi nefndin rétt að kalla ráðið saman að nýju til sérstaks fjögurra daga vinnufundar. Að þessu loknu skyldi efnt til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Er nema furða að helstu sérfræðingar í lögum skuli hafa hrist hausinn? Björg Thorarensen, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið:

„Það er erfitt að átta sig á hvað stjórnlagaráð á að fjalla um og það hefur mjög stuttan tíma til þess.“

Sigurður Líndal, lagaprófessor við Háskólann á Bifröst, var enn gagnrýnni á alla málsmeðferðina:

„Mér finnst þetta vera allsherjar handarbakavinna og í raun algjört klúður.“

Pawel Bartoszek, sem átti sæti í stjórnlagaráði, gagnrýndi Alþingi harðlega og sagði vinnubrögðin til vansa:

„Ég skora á þingið að falla frá hugmyndum um ráðgefandi þjóðaratkvæði í sumar, rýna þess í stað efnislega í tillögurnar og móta sér afstöðu til þeirra. Þing sem treystir sér ekki til þess mun hvort sem er ekki breyta stjórnarskrá.“

Ekki í samræmi við lög

Undir lok maí síðastliðins samþykkti Alþingi þingsályktun um að efna til ráðgefandi „þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd“. Þar á að leggja fyrir sex spurningar. Samkvæmt ályktuninni skal atkvæðagreiðsla fara fram „eigi síðar en 20. október 2012“.

Í 4. grein laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna segir að þær skuli fara fram í „fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt á Alþingi“. Þá segir í 5. grein sömu laga að „Alþingi ákveður kjördag þjóðaratkvæðagreiðslu“. Lögin voru samþykkt árið 2010 en Jóhanna Sigurðardóttir hafði forystu um setningu þeirra.

Þingsályktunin um þjóðaratkvæði gerði þannig ráð fyrir að hægt væri að halda þá atkvæðagreiðslu hvenær sem er frá síðustu dögum ágúst til 20. október næstkomandi. Það var því tæplega tveggja mánaða „gluggi“ fyrir kjördag. Til þess að hægt sé að efna til atkvæðagreiðslunnar með lögformlegum hætti á Alþingi því eftir að fastsetja kjördag.

Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, heldur því fram að „einhverjir lögfræðingar“ séu „komnir á flug“ þegar bent er á skýran lagabókstafinn. Steingrímur J. Sigfússon segir að það sé í samræmi við lög að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október fyrst annað hafi ekki verið ákveðið. Hvorki Valgerði né Steingrími kemur til hugar að láta lögin njóta vafans. Til þess liggur of mikið á. Til þess hafa hrakfarir ríkisstjórnarinnar, allt frá því að lagt var af stað, verið of miklar – pólitískur herkostnaður of hár.

Martröð

Enginn vildi axla pólitíska ábyrgð á því hversu hrapallega tókst til við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings. Það skal dregið í efa að nokkur ætli sér að axla ábyrgð ef ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla verður dæmd lögleysa.

Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því sem segir í siðferðiskafla skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis:

„Það er mikilvægur hluti af lýðræðislegum stjórnarháttum að haga ákvörðunum stjórnvalda jafnan þannig að þær standist skoðun og séu teknar í sæmilegri sátt við þá sem málið varðar. Frá því sjónarmiði séð krefjast lýðræðislegir stjórnarhættir þess að mál séu faglega undirbúin, ígrunduð og vel kynnt, en ekki bara að verk stjórnmálamanna séu lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabils.“

Stjórnarskráin er æðsta réttarheimild Íslands og yfir önnur lög hafin. Það verður því að gera þá kröfu að allir, ekki síst stjórnmálamenn, umgangist stjórnarskrána af virðingu og að allar breytingar séu gerðar af yfirvegun og í góðri sátt við landsmenn. Þetta virðist Jóhanna Sigurðardóttir ekki skilja. Þess vegna er málið keyrt áfram, farið er á svig við Hæstarétt og lög toguð og teygð. Hættan er hins vegar sú að draumur Jóhönnu Sigurðardóttur um breytingar á stjórnarskránni (sem hún vill að verði sín arfleifð) breytist í martröð, – martröð sem þjóðin öll þarf að upplifa löngu eftir að tími Jóhönnu er liðinn.