Það er farið að molna undan Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanni Samfylkingarinnar. Æ fleiri áhrifamenn innan Samfylkingarinnar hafa áttað sig á að ef flokkurinn ætlar að koma í veg fyrir afhroð í komandi þingkosningum, verði að setja Jóhönnu til hliðar og tefla fram nýjum formanni.

Í marga mánuði hafa þingmenn Samfylkingarinnar farið með veggnum en hvíslað sín á milli að undir forystu Jóhönnu geti þeir ekki vænst þess að eiga afturkvæmt á þing. En kjarkurinn er ekki meiri en svo að þeir þora ekki fyrir sitt litla líf að standa upp og ganga gegn formanninum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi ráðherra og formaður þingflokks Samfylkingarinnar, er óhrædd enda búinn að segja skilið við þingmennsku. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri og þingmaður, gengur með Þórunni óhrædd fram. (Steinunn Valdís þekkir af eigin raun ósanngirni og undirferli þegar hún neyddist til að segja af sér þingmennsku). Þær stöllur skrifa grein í Fréttablaðið og er greinin einnig birt á Eyjunni. Þar er fjallað um lögbrot Jóhönnu Sigurðardóttur á jafnréttislögum.

Þórunn og Steinunn Valdís saka forsætisráðherra og formann Samfylkingarinnar um dómgreindarbrest. Fjármálaráðherra, sem er þingkona Samfylkingarinnar, fær einnig sinn skammt:

„Það er ekki létt verk að höfða mál gegn stjórnvöldum. Að stíga fram og krefjast réttar síns gagnvart forsætisráðherra er ekki eitthvað sem ein kona gerir að gamni sínu. Það er stórmál sem kostar kjark og úthald, en er gert af réttlætiskennd. Nú hafa bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra skrifað greinar í blöðin til að verja ráðningu karlsins. Það er mikið í lagt gegn einni konu.

Vald einstakra ráðherra er mikið. Ekki síst fjármálaráðherra. Hann heldur á samningsumboði ríkisins við alla opinbera starfsmenn á Íslandi. Það er umhugsunarefni að fyrsta konan í embætti fjármálaráðherra á Íslandi skuli tjá sig opinberlega með þeim hætti sem raun ber vitni. Eiga konur ekki að sækja rétt sinn þegar á þeim er brotið? Á að trúa því að fjármálaráðherra vilji letja konur til þess að fara kæruleiðina þegar jafnréttið er annars vegar?

Hefði forsætisráðuneytið brugðist við niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála af yfirvegun og sanngirni hefði Anna Kristín aldrei neyðst til sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Dómgreindarbrestur og yfirlýsingagleði ráðuneytisins hefur hins vegar bakað því vandræði sem ekki sér fyrir endann á. Það ber stjórnsýslu ráðuneytisins dapurlegt vitni.“