Gjaldmiðlar

Stefanía Jónasdóttir, verslunarkona á Sauðárkróki, heldur því fram að margir á „Alþingi  og 101-lýðurinn“ láti eins og gjaldeyristekjur þjóðarinnar hafi „orðið til í skjalatöskum á Laugaveginum á leið í banka“. Stefanía skrifar hreint mögnuð bréf til Morgunblaðsins. Hún er tæpitungulaus og segir hug sinn. Þess vegna les ég alltaf bréf hennar til Moggans og þau mættu vera fleiri.

Laugardaginn 23. júní skrifar Stefanía um sjávarútveg og fleira:

„Ég hef áður sagt að mesta vá hverrar þjóðar sé óviturt en menntað fólk. Menntun er góð sé hún ekki misnotuð, lélegir og yfirborðskenndir blaða- og fréttamenn eru þar á meðal. Samfylking og Vinstri græn, í hverja gátuð þið hringt til að mæta á Austurvöll gargandi „Niður með landsbyggðina“, sem þó heldur ykkur uppi? Hentar svona stjórninni í sínu eyðileggingarferli? Gleymt er þá gleypt er, á hverju höfum við lifað, hverjir hafa byggt upp landið, nema sjómenn, bændur og verkafólk, hverjir hafa menntað ykkur, hver hefur borgað Hafró og fleiri stofnanir, haldið þið að væri einhver nýsköpun í landinu ef ekki kæmi til útgerðin, hver hefur skapað gjaldeyrinn? Margir á Alþingi og 101-lýðurinn, þið látið eins og hann hafi orðið til í skjalatöskum á Laugaveginum á leið í banka. Ég hef litið svo á að þjóðin ætti fiskinn í sjónum, en hver sækir hann? Jóhanna, viltu ekki leigja Kleifabergið og ræsa stjórnina þína til fiskveiða. Björn Valur getur spilað á gítar en þú á trommur, þá helst takturinn vel. Björn Valur ætti að vera vanur að spila út og suður eftir vana.

Á meðan útgerðin heldur uppi atvinnu, borgar laun og öll gjöld, sem eru ófá og skattana, hvern fjandann kemur ykkur þá við hvort þeir græða. Lesið aftur Litlu gulu hænuna. Vanti fé í kassann byrjið þá á Alþingi, fækkið þar í 28, sumir stíga aldrei í pontu, þeir hafa ekkert að segja og stór hluti bullar. Kallið heim þá sem eru á ofurlaunum í Evrópu og víðar, fækkið sendiherrum og seljið sendiráðin. Takið réttinn af liðinu sem er á launum + lífeyri til æviloka og fækkið jáfólkinu, sem þið hafið hrúgað inn í ráðuneytin, það var ekki kosið á þing.

Í menntaliðinu heyrðist lítt fyrir hrun, en nú kjaftar á því hver tuska og maður fyllist örvinglan af að hlusta á ykkur. Ólína Þorvarðar, þú fórst mikinn með eiturmál m.a. í Skutulsfirði, þar sem svo var slátrað lambfullum ám, þar sem lömbin köfnuðu innan í fénu, þvílík virðing fyrir lífi og ömurleg vinnubrögð. En var eitur í dýrunum, svo var víst ekki. Og ætlar þú nú að taka ábyrgð gjörða þinna, auðvitað ekki, þú heldur bara áfram að gelta og urra þegar best lætur. Helgi Hjörvar, þú vildir fá að ferðast milli landa með lifandi dýr, líklega sbr. kröfu frá ESB. Veistu ekki að enn er hundaæði í Evrópu, bara það eitt? Róbert Marshall, þú ert alinn upp í Vestmannaeyjum, því bítur þú í þær hendur sem ólu þig upp?

Blaðamenn, skoðið nú Grímsstaðamálið og fólkið í því. Össur og Jóhanna, því á að gera þjóðina að styrkþegum, þetta er aumingjaháttur? Gjaldið fyrir fimm milljarðana er að hingað komi evrópsk fyrirtæki skatt- og gjaldalaus og þau koma því að Evrópa er að kikna undan mannmergð. Hvers á þjóðin að gjalda með ónýta fréttamenn og óhæfa stjórn. Veiðigjaldið verður ekki nýtt í þágu þjóðar, það mun fara í báknið og afæturnar. Steingrímur, þú ásamt háskólaliðinu tekur þátt í öllu. Hverju á að skila þjóðinni öðru en kröfu á grunnstéttirnar, launafólkið, sem með vinnu hefur haldið ykkur uppi? Þið hafið gleymt upprunanum.“