Í dag – 16. júlí – eru þrjú ár liðin frá því að meirihluti Alþingis samþykkti að óska eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Með því að svíkja kjósendur og stefnu eigin flokks tryggðu þingmenn Vinstri grænna, með heiðarlegum undantekningum, að umsókn var send til Evrópusambandsins og það raunar tvisvar til að tryggja ljósmyndatækifæri fyrir utanríkisráðherra.

Fyrir kosningar 2009 átti enginn að fara í grafgötur með að Vinstri grænir væru á móti aðild að Evrópusambandinu. Kjósendur stóðu í þeirri trú að þingmenn flokksins myndu berjast gegn öllum tilraunum til að „lauma“ landinu inn í sambandið og undir vald Brussel. Vinstri grænir unnu góðan kosningasigur. En trúin var reist á sandi því 16. júlí 2009 greiddi meirihluti þingflokks VG atkvæði með því að hefja viðræður.

Eftirtaldir þingmenn VG greiddu atkvæði með aðildarumsókn og bera því pólitíska ábyrgð á þriggja ára aðlögunarferli sem sett var að stað:

  • Álfheiður Ingadóttir
  • Árni Þór Sigurðsson
  • Bjarkey Gunnarsdóttir (varamaður Björns Vals Gíslasonar)
  • Katrín Jakobsdóttir
  • Lilja Mósesdóttir
  • Steingrímur J. Sigfússon
  • Svandís Svavarsdóttir
  • Ögmundur Jónasson

Þá studdi Þráinn Bertelsson umsóknina en hann var þá í Borgarahreyfingunni.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sat hjá.

Allir þingmenn VG sem studdu aðildarumsóknina lögðust gegn því að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Málflutningur Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, um Evrópusambandið og hugsanlega aðild Íslands, hefur gjörbreyst frá því hann tók höndum saman við Jóhönnu Sigurðardóttur í ríkisstjórn. Varla er hægt að skýra breyttan málflutning Steingríms af öðru en að skoðanir hans til aðildar Íslands að Evrópusambandinu séu aðrar en áður. Í nóvember 1999 talaði hann um „skollaleik“ sem hafi verið aðdragandi þess að koma löndum inn í Evrópusambandið. Í desember 2011 lagðist Steingrímur J. hins vegar á móti því að aðildarviðræðum við Evrópusambandið væri frestað, enda þyrfti að láta reyna á „eitthvað af grundvallarhagsmunum okkar í viðræðum þannig að við séum einhverju nær“. Árið 1999 hélt hann því fram að það lægi fyrir í öllum meginatriðum, hvað fælist í aðild. Í maí 2012 greiddi Steingrímur atkvæði gegn því  að efnt yrði til þjóðaratkvæðis um hvort halda skyldi aðildarviðræðum áfram.

Atli Gíslason, sem sagði skilið við þingflokk VG, hefur haldið því fram að stuðningur VG við aðildarumsókn hafi verið aðgöngumiði flokksins að ríkisstjórn með Samfylkingunni.

Jón Bjarnason er einn fárra þingmanna Vinstri grænna sem hefur verið staðfastur í andstöðunni við aðild að Evrópusambandinu og hefur fengið að gjalda þess. Hann hefur gagnrýnt forystu flokksins opinberlega fyrir að ganga gegn grunnstefi í stefnunni. Síðast í dag – 16. júlí – fær Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar, að heyra það. Í grein í Morgunblaðinu bendir Jón á að þeir sem hallir séu undir aðild að Evrópusambandinu sé það „mikið kappsmál að aðildarviðræðurnar og aðlögunin að ESB gangi sem hraðast fyrir sig“:

„Þeir keppast nú við að lýsa því yfir að þessi mál séu ótengd af hálfu ESB. Svo vel þekki ég afstöðu ESB til makrílveiðanna frá tíma mínum sem ráðherra að ég get fullyrt að slíkt er mikil sjálfsblekking. Fjálgleg var grein formanns utanríkismálnefndar, Árna Þórs Sigurðssonar, nýverið þar sem þessu var haldið fram. Það hefði hinsvegar verið eðlilegt að sjávarútvegsráðherra Íslands og utanríkismálanefnd hefðu nú þegar mótmælt formlega áformum og hótunum ESB um viðskiptaþvinganir gagnvart Íslendingum og Færeyingum vegna makrílveiðanna.“

Þremur árum eftir að meirihluti þingflokks VG samþykkti að ganga til viðræðna við Evrópusambandið, er flokkurinn klofinn – honum blæðir út. Eða eins og Gísli Árnason, formaður VG í Skagafirði, segir í viðtali við Morgunblaðið:

„Það er ekkert lát á aðlögun Íslands að ESB. Málið snýst ekki um að kíkja í pakkann heldur er verið að laga þjóðfélagið að ESB, þótt enginn vilji viðurkenna það. Hljóðið í Vinstri grænum í Skagafirði er verulega þungt. Ég held að flokkurinn fái slæma útreið í næstu kosningum og þá ekki aðeins úti á landi. Því var treyst sem forystan sagði um ESB. Þar stendur ekki steinn yfir steini.“