Efnahagsbatinn á Íslandi hefur verið svipaður og á Írlandi frá 2009. Á sama tíma hefur efnahagslífið náð sér mun betur á strik í Eystrasaltsríkjunum. Þetta er niðurstaða hugveitunnar Council on Foreign Relations. Því er hafnað að Ísland sé „efnahagsundur” eftir fjármálakreppuna.

Bjarni Ólafsson blaðamaður Viðskiptablaðsins, segir að vissulega sé staða efnahagsmála á Íslandi mun betri en menn óttuðust strax eftir hrun, en umfjöllun erlendra fjölmiðla um „íslenska efnahagsundrið” sé vegna þess að „hinir keppendurnir í efnahagslegu fegurðarsamkeppninni hafa orðið mjög ljótir á undanförnum tveimur til þremur árum”. Í pistli sem birtist m.a. á vef Viðskiptablaðsins [vb.is] bendir Bjarni á að í samanburði við Grikkland, Írland, Spán, Portúgal og jafnvel Ítalíu líti Ísland bara nokkuð vel ú:

„Þá ber einnig að halda til haga að þrátt fyrir að aðferðirnar hafi verið óheppilegar og jafnvel skaðlegar þá hefur ríkisstjórnin verið nokkuð einbeitt í því að koma böndum á hallarekstur ríkissjóðs.”

Paul Krugman hefur verið duglegur við að hrósa Íslandi fyrir árangurinn, eins og Bjarni víkur að. Nóbelsverðlaunahafinn hafi nýverið birt graf þar sem „verg landsframleiðsla á árunum 2005 til 2012 er borin saman við Eistland, Írland, Lettland og Litháen”. Bjarni segir að Krugman noti ekki rauntölur heldur vísitölu „þar sem gildið 100 er toppurinn á þriðja fjórðungi 2007″. Samkvæmt þessu grafi hefur Ísland náð hvað mestum árangri og er komið næst fyrri hæðum af þessum fimm ríkjum.

Að sögn Bjarna hefur aðferðafræði Krugmans verið gagnrýnd þar sem hún gefi villandi mynd af þróuninni. Þar vitnar Bjarni til hugveitunnar Council on Foreign Relations (CFR):

„CFR birti svo á heimasíðu sinni annað graf, sem styðst við sömu tölur og Krugman, en setur gildið 100 við lægðina eftir hrunið, þ.e. á árunum 2009 til 2010 (það er mismunandi eftir ríkjum hvenærCouncil on Foreign Relations lægðinni var náð). Þegar tölurnar eru skoðaðar með þessum hætti sést annars vegar að Litháen og Eistland hafa vaxið mun hraðar en Ísland upp úr lægðinni en þessi ríki fóru líka mun hærra á árunum fyrir hrun.

Niðurstaða CFR er sú að þegar þessi gröf eru skoðuð saman sé niðurstaðan einfaldlega sú að íslenska bólan var minni en í Eystrasaltslöndunum og að uppgangurinn núna sé minni. Það er ef til vill ekki undarlegt að hagkerfi, sem þrátt fyrir allt er sæmilega þróað eins og það íslenska, skuli ekki vera eins sveiflukennt og hagkerfi sem fyrir nokkrum árum voru læst í klóm kommúnismans, en það er varla ástæða til að tala um efnahagsundur eða kraftaverk.”

Hér er hægt að lesa greiningu CFR