„Ég hefði aldrei sótt um aðild að Evrópusambandinu í ykkar sporum,“ segir Carl Hahn, fyrrverandi stjórnarformaður Volkswagen – þýska bílaframleiðandans. Í stórmerkilegu viðtali við Karl Blöndal og birtist í Sunnudagsmogganum kemur fram hrifning eins áhrifamesta stjórnanda í þýsku viðskiptalífi á síðustu áratugum. Hahn segir:

„Ísland er langt í burtu. Ísland er lítið, en þó stórt í sjálfstæði sínu vegna mikilvægrar stöðu sinnar. Ísland er með fádæmum ríkt, en sem lítil þjóð getur landið náð hvað bestri ávöxtun þessarar auðlegðar með því að vera sjálfstætt, en ekki 28. landið í Evrópusambandinu, sem á í slíkum vandræðum með sjálft sig og getur örugglega ekki sett vandamál Íslands á oddinn.”

Hahn er bjartsýnn á framtíð Íslands. Vegna mikilvægrar legu landsins, sjálfstæðis, góðrar menntunar, fæðingartíðni og góðs árangurs í að vinna á fjármálakreppunni, séu Íslendingar í framúrskarandi stöðu til að selja hérlenda framleiðslu og þjónustu:

„Þess utan furða ég mig á því hvernig land með 320 þúsund íbúum fer að því að reka öll þessi sendiráð, eiga alla þessa stjórnmálamenn, vera með ríkisstjórn, hvort sem hún er talin góð eða slæm, um það get ég ekki dæmt, en landið gengur, viðskiptalífið virkar og fólkið er vel menntað. Það er ótrúlegt að svo lítið land sé í aðstöðu til þess að reka flugfélag með góðum árangri og alþjóðlegan flugvöll, fiskiskipaflota og landhelgisgæslu og halda við svo umfangsmiklu gatnakerfi. Sennilega hefur ekkert land í heiminum lagt jafnmarga kílómetra af götum á hvern íbúa og Ísland.“

Íslenskir stjórnmálamenn mættu hugleiða orð Carls Hahn:

„Þegar ég skoða mig um í Reykjavík og sé þessi grænu svæði og mikið af nýbyggingum, sem bera fjölbreytni í húsagerðarlist vitni, anda að mér hreinu loftinu og velti fyrir mér þeirri fyrirmyndarstöðu, sem Ísland nýtur í umhverfismálum og hvernig stjórnmálin leitast við að bæta hana með því að ýta undir notkun bíla, sem ekki blása koltvísýringi út í andrúmsloftið, get ég ekki annað sagt en frábært.

Enginn áttar sig á því þegar rætt er um Ísland hvað hér búa fáir, það er einfaldlega land með vægi í huga fólks. En þið eruð í góðri stöðu bæði hvað varðar vatn og orku og það opnar möguleika í Kína, þar sem vatnsbúskapur er hvað erfiðastur í heiminum, en einnig í Afríku og víðar þar sem Íslendingar geta lagt sitt af mörkum til að bæta hlutskipti fólks.“